Samgöngusáttmálinn

Anna Sigríður Guðnadóttir

Það voru tímamót haustið 2019 þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið gerðu með sér samning um sameiginlega framtíðarsýn fyrir þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu hefur farið sívaxandi og áhrifin dyljast engum. Frá því Samgöngusáttmálinn var undirritaður hefur bílum fjölgað um 16.000 og íbúum um 21.000 á höfuðborgarsvæðinu.

Endurskoðun sáttmálans
Margt hefur breyst frá því sáttmálinn var undirritaður í þverpólitískri sátt árið 2019.
Tímabært var að endurskoða samkomulagið og til að tryggja raunhæfan tímaramma og fjármögnun hefur það verið lengt til 2040. Kostnaðartölur hafa hækkað umtalsvert enda um aukið umfang að ræða sem og vegna mikilla almennra kostnaðarhækkana.
Allar kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar og áætlaðar framkvæmdir sem nú eru nær í tíma eru háðar minni óvissu en áður. Framkvæmdir sem lengra er í eru eðli máls samkvæmt háðar meiri óvissu og fara í ítarlegra greiningarferli. Verkefnin eru umfangsmikil og munu þau verða endurskoðuð reglulega og gætt að fjármögnunar- og fjárfestingargetu

Hvað hefur þegar verið gert?
Rétt er að halda því til haga að unnið hefur verið að framgangi samgöngusáttmálans frá undirritun hans árið 2019.
Stofnvegir: Framkvæmt hefur verið á fjórum stöðum. Fyrst skal nefna breikkun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Hafra­vatnsvegi hér í Mosfellsbæ. Þá hafa verið gerðar úrbætur á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegi innan Reykjavíkur. Framkvæmdir við Arnarnesveg eru hafnar.
Göngu- og hjólastígar: Lagðir hafa verið um 20 km af stígum frá 2019. Þá hafa þrenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi verið byggð.
Umferðarstýring, flæði og öryggi: Þegar hefur verið fjárfest fyrir 1,6 ma króna í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun ljósastýringar, bætts umferðarflæðis og öryggis.

Borgarlína
Ítarlegt undirbúningsferli fyrir framkvæmdir er langt komið. Heildstætt leiðanet Borgarlínu og stórbættrar almenningsvagnaþjónustu er tilbúið.
Framkvæmdir við lotu eitt hefjast á árinu. Sérstaklega ánægjulegt er að lotan sem liggja mun til okkar í Mosfellsbæ hefur verið flutt framar í tímaröðina og er nú önnur í röðinni. Það kemur til af mikilvægi Keldnalands til fjármögnunar verkefnisins sem og væntanlegrar uppbyggingar á Blikastaðalandi. Borgarlínuvagnar munu aka að mestu í sérrými á 7-10 mínútna fresti í góðri tengingu við endurbætt leiðarkerfi almenningsvagna.
Þegar nýtt leiðarkerfi Borgarlínu og almenningsvagna verður komið í rekstur verða 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins í göngufjarlægð frá stoppistöð.

Verkefnin fram undan
Flest verkefnin í uppfærðum sáttmála eru þau sömu en tvö stór hafa bæst við. Annað er Sæbrautarstokkur en hann er lykilatriði vegna tengingar Sundabrautar sem er mikilvæg framkvæmd fyrir okkur Mosfellinga.
Hin framkvæmdin er jarðgöng undir Miklubraut í stað stokks. Truflun á umferð vegna jarðgangnagerðar verður mun minni á framkvæmdatíma en ef um stokk yrði að ræða og skiptir það miklu máli fyrir allt umferðarflæðið.

2040
Mosfellingar munu eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu njóta mjög góðs af þessum framkvæmdum, hvort sem um er að ræða vegaframkvæmdir, stígagerð eða stórbættar almenningssamgöngur. Enda er höfuðborgarsvæðið eitt atvinnusvæði og Mosfellingar sækja vinnu og þjónustu víða um höfuðborgarsvæðið.
Íbúar munu hafa raunverulegt frelsi til að velja þann samgöngumáta sem þeim hentar.
Samgöngusáttmálinn er í raun ekki fyrir okkur sem um hann ræðum núna árið 2024 eða förum með atkvæðisrétt um þetta samkomulag. Samgöngusáttmálinn er fyrir framtíðina, framtíðar Mosfellinga. Hann er fyrir börn og barnabörn Mosfellinga dagsins í dag.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar