Samgöngur eru jafnréttismál og krefjast framtíðarsýnar

Bylgja Bára Bragadóttir

Höfuðborgarsvæðið verður að vera skipulagt sem ein heild með aðgengi, jafnræði og seiglu að leiðarljósi.
Samgöngur snúast ekki fyrst og fremst um vegi, akreinar eða farartæki. Þær snúast um aðgengi. Aðgengi fólks að vinnu, námi, þjónustu og samfélagslegri þátttöku sem ræðst af því hvort samgöngukerfið virkar og fyrir hvern. Þegar það bregst, bitnar það ekki jafnt á öllum. Þess vegna eru samgöngur jafnréttismál.
Stíflan sem myndast reglulega í Ártúnsbrekkunni er skýrt dæmi um kerfisbrest. Hún er ekki aðeins tæknilegt eða staðbundið umferðarmál, heldur afleiðing skorts á heildarsýn og samhæfingu. Á undanförnum árum hafa ákvarðanir um þrengingar í borginni oft verið teknar án nægjanlegs samráðs við önnur sveitarfélög eða lykilhagsmunaaðila á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingin er sú að ákvarðanir sem teknar eru innan borgarmarkanna hafa víðtæk áhrif langt út fyrir þau.
Ártúnsbrekkan varðar því ekki einungis íbúa Reykjavíkur, heldur einnig fólk í Mosfellsbæ og önnur sveitarfélög sem sækja vinnu, nám og þjónustu yfir sveitarfélagamörkin. Þegar slíkar þrengingar eru skilgreindar sem „borgarmál“ fremur en svæðisbundið viðfangsefni, skapast flöskuhálsar sem bitna daglega á tugþúsundum manna. Þetta er hvorki sjálfbært né sanngjarnt skipulag.
Nýlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi undirstrikaði enn frekar hversu brothætt samgöngukerfið er. Ein truflun dugði til að lama umferð langt út fyrir slysstaðinn. Slíkar aðstæður snúast ekki aðeins um tafir og óþægindi, heldur einnig um öryggi. Þegar umferð safnast upp í flöskuhálsum, neyðaraðgengi skerðist og fólk situr fast í ófyrirsjáanlegum aðstæðum, eykst áhætta fyrir alla vegfarendur. Samgöngukerfi sem byggir á fáum lykilæðum er því ekki aðeins óhagkvæmt, heldur getur það einnig verið óöruggt. Slíkt ástand er ekki ásættanlegt á höfuðborgarsvæði sem vill standa undir nafni.
Flöskuhálsar í samgöngum mismuna fólki eftir búsetu. Þeir sem búa utan Reykjavíkur en sækja vinnu eða þjónustu inn í borgina bera oft meiri kostnað ekki aðeins í krónum, heldur í tíma, óvissu og streitu. Þetta hefur áhrif á lífsgæði, fjölskyldulíf og raunverulegt jafnræði fólks til þátttöku í samfélaginu. Samgöngur eru því ekki jaðarmál, heldur einn mikilvægasti grunninnviður samfélagsins.
Lausnir í samgöngumálum mega ekki byggjast á falskri andstöðu milli ferðamáta. Markmiðið hlýtur að vera kerfi sem virkar betur fyrir alla. Almenningssamgöngur, þar á meðal Borgarlínan, geta gegnt mikilvægu hlutverki ef þær eru byggðar upp sem raunverulegur, áreiðanlegur og samkeppnishæfur valkostur sem tengir sveitarfélög saman og léttir á stofnbrautum. En þær einar og sér leysa ekki vandann.
Á sama tíma er Sundabrautin nauðsynleg til að dreifa umferð, auka seiglu kerfisins og tryggja að eitt slys eða atvik geti ekki lamað stóran hluta höfuðborgarsvæðisins í einu. Hún er ekki andstæða almenningssamgangna, heldur órjúfanlegur hluti af heildarlausn. Samgöngukerfi sem treystir á fáar meginstoðir er einfaldlega of veikburða.

Í grunninn stöndum við frammi fyrir spurningu um framtíðarsýn. Erum við að skipuleggja samgöngur fyrir næstu ár eða næstu kynslóðir? Höfuðborgarsvæðið þjónar mun fleiri en þeim sem þar búa hverju sinni. Þar fer fram meginhluti atvinnu, þjónustu og verðmætasköpunar landsins. Því verðum við að hugsa innviði af meiri metnaði og skipuleggja svæðið sem eina heild jafnvel eins og hér búi mun fleiri en raun ber vitni í dag.
Samgöngur eru sameiginlegt verkefni. Jafnræði í samgöngum felst ekki í því að allir ferðist eins, heldur að allir hafi raunhæfa möguleika. Til þess þarf framtíðarsýn, samráð og pólitískt þor til að taka ákvarðanir sem styrkja kerfið í heild, fremur en að festa okkur í skammtímalausnum.

Bylgja Bára Bragadóttir, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram 31. janúar.