Sækist ekki eftir oddvitasæti

Ásgeir Sveinsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ hefur ákveðið að sækjast ekki eftir 1. sæti á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Ásgeir hefur setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá árinu 2018. „Ég brenn fyrir velferð Mosfellsbæjar og vil halda áfram að láta gott af mér leiða. Ég ætla því að halda áfram í pólitíkinni og taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí 2026. Ég mun bjóða mig fram í 6. sæti listans,“ segir Ásgeir.

Nýtt og breytt hlutverk
„Ég er þakklátur fyrir traustið sem ég hef notið á líðandi kjörtímabili og það öfluga samstarf sem við á D-lista höfum byggt upp undanfarin ár. Við höfum náð góðum árangri saman, unnið af ábyrgð að málefnum Mosfellsbæjar, og sýnt að sterk liðsheild, fagmennska og samtakamáttur er lykillinn að góðum árangri.
Í ljósi þess að nýr og öflugur frambjóðandi í oddvitasæti hjá okkur á D-lista í Mosó hefur nú stigið fram, aðili sem ég ber fullt traust til, hef ég ákveðið að sækjast ekki eftir oddvitasætinu í prófkjörinu að þessu sinni.
Þekking mín og reynsla í sveitarstjórnarmálum er eitthvað sem ég vil leggja áfram af mörkum í nýju og breyttu hlutverki á næsta kjörtímabili, en til þess þurfum við að ná háleitum markmiðum í kosningunum í vor, sem er meirihluti í bæjarstjórn.“

Hlakkar til komandi tíma
„Fái ég stuðning í 6. sæti listans í prófkjörinu verður krefjandi og spennandi markmið í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor að halda sæti mínu í bæjarstjórn, þar sem reynsla mín og þekking mun áfram nýtast vel.
Ég hlakka til komandi prófkjörs og kosningabaráttu og vona að ég njóti stuðnings D-lista fólks þann 31. janúar.“