Rýmri opnun í Bókasafninu
Á nýju ári hefur verið tekið upp á þeirri nýbreytni í Bókasafni Mosfellsbæjar að opna dyrnar upp á gátt – án þjónustu – kl. 9 á morgnana virka daga.
Hefðbundinn afgreiðslutími með þjónustu er svo frá kl. 12-18 mánudaga og þriðjudaga, kl. 10-18 miðvikudaga, kl. 12-18 fimmtudaga og föstudaga og kl. 12-16 á laugardögum allt árið.
Nú þegar nýta margir námsmenn sér aðstöðu safnsins til lestrar á morgnana. Með rýmri opnun geta árrisulir gestir kíkt í bækur, tímarit og dagblöð, fengið sér kaffibolla, komist í tölvur, tekið að láni bækur í sjálfsafgreiðslu og skilað. Í safninu er ein sjálfsafgreiðsluvél og einnig leitartölva þar sem gestir geta flett upp safnkosti.
Á morgnana er oft líf og fjör í safninu, þó svo ekki sé boðið upp á hefðbundna afgreiðslu. Leik- og grunnskólahópar koma í heimsókn, leshópur eldri borgara hittist og fleira mætti nefna.
Með því að opna dyrnar kl. 9 er komið til móts við þá safngesti sem kjósa að sinna erindum fyrir hádegi, eða eru í vinnu eftir hádegi – eða bara þá sem eru á ferðinni í Kjarna af einhverjum ástæðum.
Fyrirkomulag af þessu tagi, opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs og Amtsbókasafninu á Akureyri.