Rótarýklúbburinn styrkir Píeta samtökin
Á síðasta starfsári Rotary International var geðheilsa meginþema.
Síðastliðið vor kom Benedikt Þór Guðmundsson, verkefnastjóri og einn af stofnendum Píeta samtakanna, á fund Rótarýklúbbs Mosfellssveitar og hélt afar fróðlegt erindi um starfsemi samtakanna.
Píeta samtökin eru frjáls félagasamtök sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, sinna meðferð skjólstæðinga í sjálfsvígshættu og styðja við aðstandendur þeirra og aðstandendur þeirra sem hafa tekið eigið líf.
Píeta samtökin starfa eftir hugmyndafræði samnefndra samtaka á Írlandi. Samtökin njóta styrkja almennings á Íslandi og eru því í eigu þjóðarinnar og háð henni varðandi rekstrarfé.
Rótarýklúbbur Mosfellssveitar ákvað að styrkja Píeta samtökin og þann 12. september var styrkurinn afhentur. Það gerðu Alfreð Svavar Erlingsson, forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar, og Þorkell Magnússon, formaður verkefnanefndar. Þau Ellen Calmon, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna og Benedikt Þór Guðmundsson veittu styrknum móttöku á starfsstöð samtakanna á Amtmannsstíg 5a í Reykjavík.