Reykjalaug fundin
Í tengslum við lagningu gangstígs upp Reykjaveg að Suður-Reykjum var ákveðið að reyna að staðsetja Reykjalaug sem lenti undir vegi um 1940.
Mosfellsbær óskaði eftir aðstoð Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Minjastofnunar Íslands við að finna hina sögufrægu Reykjalaug með jarðsjá. Af hundruðum lauga og hvera sem voru eitt sinn í Mosfellssveit var hún þeirra þekktust. Í öllum helstu ferðabókum frá 18. öld og fram á okkar daga var minnst á Reykjalaug.
Á korti frá 1771 sem fylgir Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er getið þriggja örnefna í Mosfellssveit; Gufuness, Reykjalaugar og Mosfells. Þorvaldur Thoroddsen getur þess í riti sínu Lýsing Íslands að á suðvesturlandi fyrir sunnan Esju séu kunnastar laugar hjá Reykjum í Mosfellssveit og Laugarneslaug sem Reykvíkingar noti til þvotta. Þarna er laugunum í Reykjahverfi og Reykjalaug í raun jafnað við þvottalaugarnar í Laugarnesi.
Síðar kom í ljós mun meiri orka í Reykjahverfi en við Þvottalaugarnar. Laugin var hlaðin úr grjóti um 3,5 metrar í þvermál og dýpst um 2,5 metrar, en vatnshæð um einn metri. Oddný Helgadóttir húsfreyja á Ökrum (f. 1913) sagði að leirtau og lín hefði verið þvegið í lauginni en ekki annar fatnaður. Heitt vatn var leitt úr Reykjalaug í fjósið á Reykjahvoli.
Þessi má geta að árið 1908 var bærinn á Suður-Reykjum fyrsta íbúðarhús á Íslandi sem hitað var upp með rennandi hveravatni. Vatnið kom úr sk. Tunnuhver sem stóð í mynni Skammadals.
Fyrsta gróðurhúsið á Íslandi var einnig sett upp á Suður-Reykjum á árunum 1923-1924. Á fjórða áratugnum var farið að bora eftir heitu vatni á Reykjum, sem svo var flutt í leiðslum til Reykjavíkur. Við það hurfu flestar laugar og hverir af yfirborðinu í Reykjahverfi. Mokað var ofan í hina frægu Reykjalaug og vegur lagður yfir.
Hinn 11. mars sl. mættu Ármann Höskuldsson jarðfræðingur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands og Diana Alvarez doktorsnemi í jarðfræði til að leita Reykjalaugar með jarðsjá. Með hinni öflugu jarðsjá mátti greinilega sjá manngerðar hleðslur – Reykjalaug var á sínum stað undir veginum.
Fróðlegt og skemmtilegt væri að Mosfellsbær með stuðningi Orkuveitunnar og landeigenda léti grafa upp hina frægu Reykjalaug í tengslum við lagningu gangbrautar upp að Suður-Reykjum.
Þannig væri hinu sögulega og merka náttúruundri komið til nútímans, en með virkjun jarðhitans á Reykjum hefur heita vatnið skilað landsmönnum milljörðum króna í formi varmaorku. Rétt er að minna Mosfellinga og landsmenn alla á uppruna hinna miklu auðæfa og ekki grafa þau í jörðu.
Magnús Guðmundsson
Formaður Sögufélagi Kjalarnesþings