Ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar, en hún var valin úr hópi 23 umsækjenda.
Sem framkvæmdastjóri mun hún koma til með að bera ábyrgð á rekstri sóknarinnar, mannauðsmálum, umsjón með kirkjugörðum, fasteignum og sitja sóknarnefndarfundi. Jóhanna Ýr hóf störf í byrjun ágúst. Hún er með B.A. í guðfræði, diploma próf í kennslufræðum ásamt því að hafa lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá EHÍ. Jóhanna Ýr hefur áður unnið við kennslu í Grunnskólanum í Hveragerði og Sunnulækjarskóla á Selfossi, var verkefnastjóri fræðslustarfs við Selfosskirkju, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar og skrifstofustjóri hjá Framsókn. Þá er Jóhanna Ýr bæjarfulltrúi Framsóknar í Hveragerði og fyrrum forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs.
Jóhanna Ýr býr í Hveragerði ásamt sambýlismanni sínum Ara Guðmundssyni og samtals eiga þau sex börn. Jóhanna Ýr segist vera afar spennt fyrir nýja starfinu, hlakkar til að vinna með samstarfsfólki og sóknarnefnd að þjónustu og frekari uppbyggingu sóknarinnar.