Pizzabær?

Það er rafíþróttakvöld í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ (FMOS) í kvöld, fimmtudaginn 25. september. Við, samfélagið, erum að koma á fót rafíþróttastarfi í bænum. FMOS mun bjóða upp á æfingaaðstöðu, Mosfellsbær fjármagnar kaup á búnaði og Rafíþróttadeild Mosfellsbæjar (RafMos) mun halda utan um starfið sjálft. RafMos tekur fagnandi á móti öllum sem vilja taka þátt í starfinu, sérstaklega foreldrum þeirra barna sem vilja æfa rafíþróttir í haust og vetur. Rafíþróttir eru hugaríþrótt eins og skák, en nýstofnað Skákfélag Mosfellsbæjar hefur einmitt hafið æfingar í bænum. Þær fara fram í Varmárskóla á fimmtudögum milli 16:30 og 18:00. Fram að áramótum er frítt á þessar æfingar og allir krakkar að sjálfsögðu velkomnir.

Það má líka segja að borðtennis sé ný íþrótt í Mosfellsbæ, en Borðtennisfélag Mosfellsbæjar stendur nú fyrir reglulegum æfingum í nýjasta íþróttahúsi bæjarins, íþróttahúsinu við Helgafellsskóla. Félagið var áður með æfingar í matsal Lágafellsskóla, en ný aðstaða býður upp á tækifæri til vaxtar. Parkour er sömuleiðis ný íþrótt í Mosfellsbæ, en Fimleikadeild Aftureldingar býður nú upp á æfingar fyrir bæði börn og fullorðna í parkour í fimleikasalnum að Varmá.

Fjallahjólasportið er mjög vaxandi í Mosfellsbæ, enda kraftmiklir frumkvöðlar sem leiða starfið og stuðla að framþróun og tækifærum fyrir unga sem aldna. Mosfellsbær vill vera leiðandi á sviði heilsueflingar fyrir íbúa á öllum aldri og næstu daga verður boðið upp á fallæfingar og fyrirlestra fyrir eldri borgara, göngufótbolta fyrir okkur sem erum miðaldra og megum ekki lengur rennitækla og leikskólaleika fyrir yngstu kynslóðina.

Pizzabær? Nah, ekki lengur, Dóri minn. Í dag erum við íþróttabær. Og við erum rétt að byrja. Við viljum meira. Það er alltaf svigrúm til bætinga. Og við þurfum að hugsa þannig. Horfa til framtíðar og finna leiðir til þess að geta boðið upp á enn fleiri íþróttir í Mosfellsbæ þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 25. september 2025