„Örlögin í okkar höndum,“ segir Maggi
Næstkomandi sunnudag verður nákvæmlega eitt ár liðið síðan Afturelding komst upp í Bestu deild karla í fótbolta í fyrsta skipti í sögunni eftir sigur í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Sumarið í Bestu deildinni hefur verið skemmtilegt og það hefur verið gaman að sjá frábæran stuðning frá Mosfellingum á heimaleikjum á Malbikstöðinni að Varmá.
Öflugir sigrar á heimavelli í sumar
Afturelding hefur unnið mjög öfluga sigra á heimavelli í sumar og einungis tapað tveimur leikjum. Leikmannahópurinn er mikið til sá sami og komst upp í Bestu deildina í fyrra og ekkert lið í Bestu deildinni hefur teflt fram fleiri uppöldum leikmönnum í sumar.
Það er til marks um frábært barna- og unglingastarf hjá Aftureldingu. Fram undan eru fjórir leikir í úrslitakeppni til að tryggja áframhaldandi sæti í Bestu deildinni.
Klukkan 16 á sunnudag kemur KA í heimsókn á Malbikstöðina að Varmá og verður boðið upp á skemmtilega fjölskyldudagskrá í kringum þann leik. Það hefur sést í úrslitakeppnum undanfarin ár í öllum íþróttum að stuðningsmenn Aftureldingar eru þeir bestu á landinu þegar þeir taka sig til.
KFC býður frítt á völlinn á sunnudaginn
„Það væri geggjað að fá sem flesta rauðklædda áhorfendur á völlinn á sunnudag til að hjálpa strákunum í þessum mikilvæga leik. Gerum þetta saman fyrir Aftureldingu og Mosó. Örlögin eru í okkar höndum – hjálpumst að og tryggjum sætið í Bestu deildinni,“ segir Magnús Már þjálfari Aftureldingar.
Frítt verður á völlinn í boði KFC.