Opnun jólatrjáasölu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar
Jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar opnar sunnudaginn 8. desember klukkan 13-14. Fyrsta tréð verður sagað, harmonikkuleikur mun óma um skóginn, Álafosskórinn mun syngja nokkur lög og að sjálfsögðu munu jólasveinar mæta í skóginn.
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður 70 ára á næsta ári, en félagið var stofnað árið 1955 af Kvenfélagi Lágafellssóknar, Ungmennafélaginu Aftureldingu og Skógræktarfélagi Skáta við Hafravatn. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan félagið var stofnað og mörg svæði innan Mosfellsbæjar orðin skógi vaxin. Á tíma Guðrúnar Hafsteinsdóttur, sem var formaður frá 1983 til 2003, bættust fjölmörg svæði við og þar má nefna Æsustaðahlíð, Þormóðsdal, Lágafell, Norður-Reyki, Helgafell og Úlfarsfell gegnt Skarhólabraut. Þetta eru svæði sem eru orðin útivistarsvæði Mosfellinga og munu verða um ókomin ár.
Fyrsta skógræktarsvæði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar var í Hamrahlíð við Vesturlandsveg, en þar hófust gróðursetningar árið 1957. Það þýðir að elstu trén í Hamrahlíðarskóginum nálgast 70 árin og eru þau hæstu komin yfir 22 metra hæð.
Hamrahlíðarskógurinn samanstendur af fjölmörgum trjátegundum en þær algengustu eru sitkagreni, stafafura og blágreni, en einnig er nokkuð um birki, lerki og fleiri trjátegundir. Eins og Mosfellingar þekkja er þetta orðið eitt af bestu og fjölsóttustu útivistarsvæðum höfuðborgarsvæðisins og þó víðar væri leitað. Í Hamrahlíðarskóginum eru fjölmargar gönguleiðir sem tengjast svo við hina ýmsu göngustíga sem liggja um Úlfarsfellið þvert og endilangt. Það er einmitt á þessu svæði félagsins þar sem jólatrjáasala Skógræktarfélagsins er staðsett.
Heimsókn í skóginn til að næla sér í jólatré er orðinn fastur liður í undirbúningi jólanna hjá fjölmörgum Mosfellingum og nærsveitungum. Eins og áður gefst fólki bæði kostur á að sækja sér jólatré í skóginn, en það er fátt sem toppar það að finna hið eina sanna jólatré með sög í hönd og finna jólaandann færast yfir sig. Svo er einnig afar vinsælt að heimsækja rjóðrið okkar og kanna úrvalið af þeim trjám sem koma úr skógum Skógræktarfélagsins. Í rjóðrinu ríkir mikill jólaandi enda er þar góð lýsing og svo er alltaf skjól í skóginum.
Björn Traustason
Formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar