Opið bréf til sóknarnefndar

Már Karlsson

Haustið 2023 réðist organisti til sóknarinnar sem mikils var vænst af. Það má síðan ljóst vera að sóknarnefndin hafði því miður ekki kynnt sér sem skyldi fyrri störf umsækjandans, sem virðast að jafnaði hafa staðið stutt á hverjum stað.
Ástæður þess hafa orðið okkur ljósari sem tökum þátt í kórstarfi kirkjunnar eftir því sem tíminn hefur liðið. Kórfélagar hafa ekki áður kynnst svo miklu áhugaleysi og slælegri ástundun nokkurs fyrirrennara hans.

Undirritaður gekk á fund prestanna sl. haust og reyndi með því að hjálpa til við að starfsemin kæmist í betra horf. Greindi þeim frá því að þjónusta organistans við kirkjukórinn væri langt frá því að vera viðunandi. Ekki væri einleikið hversu oft æfingar væru felldar niður.
Það er ekki frekar af því að segja en að mér var fálega tekið og þótti mér afar miður að vera vændur um ósannindi. Aðvörun mín hefur greinilega að engu verið höfð til að bæta starfið.

Út yfir alla þjófabálka tók þó þann 11. febrúar sl. en þann dag boðaði organisti til æfingar en þá höfðum við ekki séð hann síðan 5. janúar. Engin varð æfingin. Nei. Hann lýsti því hvernig honum hefði ekki tekist að ná þeim árangri með kórinn sem hann vænti.
Í stað þess að taka sig á við æfingar og halda þær reglulega eins og í kjarasamningi er ráð fyrir gert þá lýsti hann því yfir að hann legði kórinn niður!
Í framhaldinu spurði hann síðan hvort við værum samt ekki tilbúin að syngja fram á vorið, svo sem þrjá mánuði í viðbót og verða blessuð í lokin. Virðingarvert og vel boðið það? Svar félaganna við því hefur verið nokkuð í þá veru sem einn kórfélaginn sagði: „Ég er ekki tilbúinn að leggjast á höggstokkinn og syngja þar til öxin fellur.“

Framkoma þessa manns er með ólíkindum. Hann er ráðinn til safnaðarins til þess að styðja og styrkja safnaðarstarf og greidd laun úr safnaðarsjóði – þ.e. af safnaðarbörnum – en telur sig þess umkominn að vísa hópi þeirra frá starfi með söfnuðinum. Hópi safnaðarbarna sem iðulega eru uppistaða þeirra er messur sækja. Og hvers vegna skyldi það vera?
Ástundun hans gefur ekki annað til kynna en það sé fyrst og fremst til þess að komast undan vinnuskyldu, erfiðinu við að halda kóræfingar vikulega.

Með því að bera sig aumlega síðastliðið haust lét sóknarnefnd eftir organistanum að spila ekki nema hluta þeirra sunnudaga er samningar organista og þjóðkirkunnar kveða á um. Einsdæmi? Hver varð skerðing á starfshlutfalli við það? Einnig er gert ráð fyrir kórstarfsemi sem föstum lið í fyrrgreindum samningi. Hvaða hugmyndir skyldu vera um starfshlutfallsminnkun við að losna undan kóræfingum?
Mér hefur í engu verið svarað erindi til sóknarnefndar sem ég sendi 17. febrúar. Þar sem svo tregt hefur verið um svör hef ég sent biskupi afrit af bréfinu. Geri það samvisku minnar og réttlætis vegna í þeirri trú að þar megi vera stuðningur við almennt safnaðarstarf sóknarbarna.
Svar hefur borist um að framkvæmdastjóri biskupsstofu og biskupsritari muni boða til fundar með prófasti. Hlutverk prófasts er m.a. að hafa tilsjón með kirkjulegu starfi og annast sáttaumleitanir þar sem vígðum jafnt sem leikum hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli eins og það er orðað í starfsreglum þjóðkirkjunnar.

Þeirri mikilvægustu spurningu sem komið hefur upp í hugann er hér varpað fram hvort sóknarnefnd telji hlutverk sitt vera fyrst og fremst að gæta hagsmuna starfsmanna fremur en að styðja við hið almenna safnaðarstarf með þátttöku safnaðar. Ef svo skyldi vera má spyrja hvort kirkju- og safnaðarstarf sé orðið fyrst og fremst fyrir starfsfólk til þess að hafa af því atvinnu?

Að endingu fer ég fram á að sóknarnefnd Lágafellssóknar taki til málefnalegarar umfjöllunar erindi sem til hennar hefur verið beint og svari mér, sóknarbarni til 42 ára, er nú í fyrsta sinn hefur sent henni umkvörtunarbréf.

Már Karlsson