Ærslabelgur á Stekkjarflöt og sleðabrekka í Ævintýragarð
Ærslabelgur mun rísa á Stekkjarflöt og búið verður til skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum í kjölfar íbúakosninga um verkefni í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó. Íbúar kusu einnig meðal annars að fá flokkunarruslafötur, merkja toppa bæjarfella og fjalla og bætta lýsingu á göngustígum.
Metþátttaka var í kosningum sem stóðu frá 17. til 28. maí eða 19,1% sem er mesta þátttaka sem hefur verið í sambærilegum kosningum á Íslandi.
Alls hlutu 11 hugmyndir brautargengi en 35 milljónum verður varið í framkvæmd verkefnanna. Framkvæmd þeirra hefst í sumar en lýkur haustið 2020.
Kosningaþáttaka aukist töluvert
Tæplega 1.800 manns tóku þátt í kosningunni sem er 19,1% Mosfellinga 15 ára og eldri. Um 61% þátttakenda voru konur, tæplega 39% karlar. Þegar reiknað er út hlutfall þátttakenda innan hvers aldursbils sem kaus kemur í ljós að þátttakendur á aldrinum 31−40 ára voru fjölmennastir eða 32%.
Síðast þegar kosið var í Okkar Mosó árið 2017 tóku 14% íbúa 16 ára og eldri þátt í kosningunum. Síðan hefur bæði fjölgað talsvert í bæjarfélaginu en einnig voru fleiri á kjörskrá í ár vegna lækkaðs kosningaaldurs. Þátttaka hefur því aukist talsvert.
11 hugmyndir kosnar til framkvæmda
1 – Ærslabelgur settur upp á Stekkjarflöt.
2 – Skíða- og brettaleiksvæði í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum
3 – Flokkunarruslafötur settar upp á þremur stöðum við göngustíga
4 – Merkingar á toppum bæjarfella og fjalla
5 – Betri lýsing á göngustíg milli Hulduhlíðar 30−32
6 – Miðbæjartorgið gert skemmtilegt með leiktækjum
7 – Ungbarnarólur fyrir yngstu börnin í Hagaland og Leirvogstungu
8 – Hvíldarbekkir og lýsing meðfram göngustígum við Varmá
9 – Kósý Kjarni – notalegri aðstaða til samvista
10 – Lýsing sett upp á malarstíg frá Álafosskvos að brú við Ásgarð
11 – Fræðsluskilti með sögu Álafossverksmiðjunar sett upp í Kvosinni