Öflug kirkja í Mosfellsbæ

Rafn Jónsson

Í Lágafellssókn er unnið mikið og öflugt safnaðarstarf. Það hefur orðið enn umfangsmeira og fjölbreyttara síðustu ár og helgihald hefur tekið miklum breytingum. Safnaðarstarf hefur aldrei verið öflugra né messusókn betri.
Teknar hafa verið upp margar nýjungar í starfinu bæði varðandi messuform og messutíma og hefur það mælst vel fyrir. Starf með eldri borgurum hefur líka verið öflugt í samstarfi við Mosfellsbæ. Barnastarfið er þá ekki síðra, öflugur sunnudagaskóli og fjölmennur, tvískiptur barnakór. Þá eru ónefndir foreldramorgnarnir og fleira. Í sumar verða svo sumarnámskeið fyrir 6–9 ára börn. Þessi námskeið hafa mælst mjög vel fyrir.

Endurbætur og viðgerð á Mosfellskirkju
Þann 4. apríl sl. voru liðin 60 ár frá vígslu Mosfellskirkju 1965. Kirkjan þótti mjög nútímaleg þegar hún var byggð og form hennar óvenjulegt. Tíminn hefur leikið kirkjuna grátt og fyrir um ári síðan neyddumst við til að hætta með athafnir í henni vegna myglu.
Síðastliðið haust var ákveðið að ráðast í viðgerðir og endurbætur. Vonandi líkur þeim snemma í sumar. Kostnaður vegna þessara endurbóta getur numið allt að 70 milljónum króna. Þegar verkinu verður lokið mun húsið uppfylla ýmsar kröfur s.s. um aðkomu og salernisaðstöðu fyrir alla. Skipt er um gólf í kirkjunni, klæðningu að innan og utan og húsið einangrað upp á nýtt. Markmiðið er að húsið verið notað til fjölmargra athafna á vegum kirkjunnar sem og menningarfélaga í Mosfellsbæ.

Aðalfundur
Þann 8. maí nk. verður haldinn aðalsafnaðarfundur Lágafellssóknar í safnaðarheimili sóknarinnar að Þverholti 3, 3. hæð kl. 20. Fólk er hvatt til að mæta og gefa kost á sér til þeirra góðu starfa sem unnin eru innan kirkjunnar. Framundan eru mörg spennandi verkefni sem munu efla starfsemina enn frekar og það er alltaf pláss fyrir hugmyndaríkt og duglegt fólk!
Fjárhagsleg staða sóknarinnar er góð enda ein fjölmennasta sókn landsins. Það eru því tækifæri til að gera marga góða hluti enn betri!
Aðalfundir safnaða fjalla að mestu um starfsemi og afkomu síðasta árs en ekki er ólíklegt að vendingar í tónlistarmálum á þessu komi einnig til umræðu á aðalfundinum þann 8. maí. Því miður hætti kirkjukór Lágafellssóknar starfsemi skömmu fyrir fermingar.
Kórfélagar upplifðu að kórinn hefði verið rekinn en það er misskilningur sem virðist langlífur. Það er mjög leiðinlegt að svona hafi farið því margir kórfélagar hafa lagt mikið á sig um áratuga skeið í sjálfboðavinnu fyrir kirkjuna og eru þeim þökkuð óeigingjörn störf. Hins vegar lá fyrir að það yrði að efla tónlistarstarfið og tengja það breyttum áherslum í starfinu en það hefur því miður ekki tekist sem skyldi.
Í kjölfar brotthvarfs kórsins hætti tónlistarstjóri kirkjunnar. Því var gripið til þess ráðs að fá utanaðkomandi tónlistarmenn til að sinna tónlist í fermingarmessum og um páskana. Ekki er að heyra annað en að tónlistarflutningurinn hafi mælst vel fyrir. Í sumar verður væntanlega ráðinn nýr tónlistarstjóri til starfa og hann mun hafa hreint borð til að byggja á öflugt tónlistarstarf. Vitaskuld eru gamlir kórfélagar boðnir velkomnir til þátttöku í því starfi eins og unnt er.
Hið góða starf sem kirkjan vinnur alla daga í sókninni okkar hvarf dálítið í skuggann vegna málefna kirkjukórsins. Mergur málsins er sá að starfið er öflugt og starfsmenn og sjálfboðaliðar, hvort sem er í safnaðarstarfi eða sóknarnefnd leggja mikið og óeigingjarnt starf á sig til þess að gera veg kirkjunnar sem bestan. Vonandi verður tónlistarstarf kirkjunnar næsta haust hluti af þessari uppbyggingu og framþróun og þá með þátttöku einhverra þeirra sem áður voru í kirkjukórnum.

Rafn Jónsson, formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar.