Nýtt sam­komulag fel­ur í sér þreföld­un hjúkr­un­ar­rýma

Samkomulag sem undirritað var þriðjudaginn 1. júlí felur í sér þreföldun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ.
Reisa á nýtt hjúkrunarheimili í bænum með 66 hjúkrunarrýmum en þar eru í dag 33 rými. Alls verða því 99 hjúkrunarrými í Mosfellsbæ.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu samkomulagið í sól og blíðu utan við hjúkrunarheimilið Hamra við Langatanga. Áætlað er að nýja heimilið verði reist sem tengibygging við Hamra.

Stefnt að opnun árið 2028
„Ég er mjög ánægð með þessa miklu fjölgun hjúkrunarrýma og þann samning sem við vorum að undirrita,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Viðbyggingin er staðsett á einstaklega fallegri lóð og hér vonum við að framtíðaríbúar fái notið gæðaþjónustu.“
Mosfellsbær útvegar ríkinu lóðina og á næstunni verður auglýst eftir uppbyggingaraðila sem mun sjá um eignarhald og framkvæmdir gegn langtímaleigusamningi við ríkið. Miðað er við að framkvæmdir hefjist árið 2026 þannig að taka megi hjúkrunarrýmin í notkun árið 2028. Öll herbergin verða einbýli með baðherbergi.

Nýr samningur markar tímamót
Að sögn Regínu þá markar nýr samningur tímamót þar sem 15% þátttaka sveitarfélagsins við uppbygginguna fellur niður en ríkið sér alfarið um uppbyginguna og jafnframt að sveitarfélögum verði heimilt að innheimta gatnagerðargjöld af lóðum fyrir hjúkrunarheimili.
Að lokinni undirritun gróðursettu ráðherra og bæjarstjóri broddhlyn sem mun vaxa samhliða uppbyggingunni við Hamra.