Nýr Varmárvöllur: Uppbygging sem markar tímamót í íþróttaaðstöðu Mosfellsbæjar
Uppbygging Varmárvallar hefur á undanförnum misserum verið eitt umfangsmesta verkefni í íþróttaaðstöðu Mosfellsbæjar og markar tímamót í þjónustu við knattspyrnu, frjálsar íþróttir og almenna hreyfingu í bænum.
Völlurinn hefur verið endurhugsaður frá grunni með það að markmiði að skapa aðstöðu sem standist bæði íslenskar kröfur og alþjóðleg viðmið sem geti þjónað íbúum Mosfellsbæjar til framtíðar.
Gervigrasið á aðalvellinum hefur nú verið lagt og mótar ásýnd svæðisins með skýrum hætti. Nýr völlur, með keppnisvelli á stærð sem uppfyllir reglur um fullbúinn knattspyrnuvöll, hefur tekið á sig glæsilega mynd. Þar að auki hefur verið unnið að lagningu hitalagna undir völlinn til að tryggja að hægt sé að nýta aðstöðuna á vetrarmánuðum.
Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki um leið og veðurfar gefur tilefni til og að völlurinn verði tekinn í notkun fljótlega í kjölfarið.
Eitt athyglisverðasta framfaraskref uppbyggingarinnar er nýtt flóðljósakerfi. Ljósin voru tendruð í fyrsta sinn fyrr í vetur og ná birtustigi upp á 800 lux, sem uppfyllir kröfur Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) fyrir leiki á Evrópustigi. Aðeins Laugardalsvöllur hefur hærra birtustig á landinu. Allt frá upphafi hefur hönnun vallarins miðað að því að skapa aðstöðu sem geri Mosfellsbæ að raunhæfum leikstað í framtíðinni fyrir alþjóðlega viðburði, samhliða því að styrkja grunninn að knattspyrnustarfi bæjarins.
Annar eins metnaður fyrir knattspyrnuhreyfingunni hefur ekki sést hér áður í Mosfellsbæ fullyrði ég. Stórt hrós til meirihlutans fyrir þessar metnaðarfullu aðgerðir. Loksins segi ég bara! Áratugum saman hafði knattspyrnan, fjölmennasta íþróttahreyfingin, einfaldlega setið aftarlega á forgangslistanum hjá stjórnvöldum. Með nýjum meirihluta tókst þetta hins vegar, knattspyrnan komst á dagskrá ásamt allri íþróttahreyfingunni. Fyrir kosningar talaði Framsókn fyrir lýðheilsusjónarmiðum og að uppbygging íþróttamannvirkja verði metnaðarfull og svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram; flokkurinn hefur sýnt að honum er treystandi því hann hrindir stefnu í framkvæmd. Það er ekki sjálfgefið hjá stjórnmálaflokkum.
Framkvæmdir á frjálsíþróttasvæðinu norðan við gervigrasvöllinn eru einnig stór þáttur í verkefninu. Þar verður komið upp nýrri og nútímalegri aðstöðu fyrir frjálsíþróttir, en leggja þarf yfirborðsefni í þurru og hlýju veðri. Því liggur fyrir að þeirri vinnu verður ekki lokið fyrr en í vor. Þegar öllu svæðinu verður lokið verður til samfelld íþróttamiðstöð sem þjónar bæði boltaíþróttum og einstaklingsíþróttum á faglegan og fjölbreyttan hátt.
Með uppbyggingu Varmárvallar sýnir Mosfellsbær fram á skýra framtíðarsýn í þróun íþróttaaðstöðu. Hér er ekki verið að horfa örfá ár fram í tímann heldur hundrað ár, slíkur er metnaðurinn í framkvæmdinni. Bærinn er að búa til innviði sem gera íþróttafólki kleift að æfa við bestu mögulegu skilyrði allt árið um kring og tryggja að börn og ungmenni hafi örugga, vandaða og aðgengilega aðstöðu til afreks- og grunnæfinga. Slíkar framkvæmdir hafa víðtæk samfélagsleg áhrif; þær efla félögin í bænum, stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum og skapa vettvang sem styrkir félagsleg tengsl og heilsueflingu til lengri tíma.
Varmárvöllur er því ekki einungis nýr völlur. Hann er fjárfesting í framtíð íþróttastarfs í Mosfellsbæ, í uppbyggingu sterkra félaga og í því að skapa skilyrði þar sem íbúar á öllum aldri geta notið hreyfingar og íþrótta í góðu og öruggu umhverfi. Þetta er stór áfangi fyrir bæinn og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun hans sem öflugs og framsækins íþróttabæjar.
Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna




