Nýr leikskóli byggður í Helgafellshverfi
Mosfellsbær er fjölskylduvænn bær
Næsta haust verða seinni tveir áfangar Helgafellsskóla teknir í notkun og verður þá skólinn orðinn heildstæður leik– og grunnskóli. Mikil fjölgun íbúa í Mosfellsbæ síðustu ár kallar svo á áframhaldandi uppbyggingu skólamannvirkja.
Tekin hefur verið ákvörðun um að hefja byggingu á nýjum leikskóla í Helgafellshverfi og hefur bæjarráð falið umhverfis- og fræðslusviði að hefja undirbúning að þeirri framkvæmd. Um verður að ræða 1.200 fermetra húsnæði þar sem hægt verður að taka á móti um rúmlega 100 börnum. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2023.
Mikil fjölgun barna
Það er ánægjulegt að segja frá að ekkert sveitarfélag á landinu hefur tekið á móti jafn miklum fjölda barna á undanförnum árum. Mesta fjölgun barna er á austursvæði bæjarins og þá mest í Helgafellshverfi. Leikskólabörn á aldrinum 2–5 ára í Mosfellsbæ eru 657 og 1 árs börn eru 181. Þann 1. október voru 730 börn úr þessum hópi skráð í leikskóla í Mosfellsbæ að ungbarnadeildum meðtöldum, en auk þess eru 46 börn hjá dagforeldrum.
Fjölgun leikskólaplássa
Til að mæta þessari fjölgun barna verður leikskólaplássum fjölgað í 800 í leikskólum bæjarins. Næsta haust verður mesta fjölgun plássa í Helgafellsskóla og Höfðabergi en sú breyting verður á að Höfðaberg verður alfarið leikskóli þar sem 1.–2. bekkur fer yfir í Lágafellsskóla samhliða fækkun barna í þeim skóla.
Einnig verður sú breyting í Helgafellshverfi að elsta deild leikskólans færist í grunnskólahluta húsnæðisins þar sem teymiskennsla verður á milli 5 og 6 ára barna. Þar með fjölgar plássum í leikskóladeild Helgafellsskóla úr 77 í 117.
Á meðfylgjandi töflu má sjá hver fjölgun leiksskólaplássa hefur verið síðast liðin 10 ár.
Búum vel að barnafjölskyldum
Það er stefna meirihluta Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna að Mosfellsbær styðji vel við barnafjölskyldur sem og alla íbúa bæjarins. Íbúum mun áfram fjölga í bænum þótt ekki sé gert ráð fyrir jafnmikilli fjölgun og síðast liðin ár.
Góðir skólar þar sem fram fer faglegt starf tryggja velferð barnanna í bænum og öflugt fræðslu- og frístundastarf er liður í því að tryggja að Mosfellsbær sé áfram framúrskarandi kostur til búsetu.
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar