Ný byggð, nýjar áherslur

1. áfangi Blikastaðahverfis

Um miðjan janúar var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um vinnslutillögu vegna deiliskipulags 1. áfanga í Blikastaðahverfi. Þetta er annar opni fundurinn um uppbyggingaráform í Blikastaðalandi en auk þess voru fyrstu gögn deiliskipulagsáforma, skipulagslýsingin, kynnt í lok ársins 2023.
Jóhanna Helgadóttir, arkitekt hjá Nordic arkitektum, kynnti tillöguna ásamt drögum að umhverfismati og Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, fór yfir samgöngur Blikastaðalandsins, ásamt áhrifum bættra almenningssamgangna og tilkomu fyrirhugaðrar Sundabrautar. Valdimar Birgisson formaður skipulagnefndar var fundarstjóri.
Á fundinum var einnig kynnt áþreifanlegt módel af tillögunni sem gestir gátu rýnt frá öllum sjónarhornum.
Það voru líflegar umræður í kjölfar erindanna og margar spurningar sem brunnu á fundargestum.
Við ræddum við Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar í kjölfar íbúafundarins.

Hvernig á að koma öllum þessum íbúafjölda fyrir í þeim skólum og leikskólum sem eru í bænum í dag og annarri þjónustustarfsemi?
Vorið 2022 var gerður uppbyggingarsamningur um Blikastaði en svæðið er eitt stærsta óbyggða land innan höfuðborgarsvæðisins eða um 90 hektarar að stærð. Samningurinn tók til alls uppbyggingarsvæðisins, en gert er ráð fyrir 3.500 íbúðum í heildina og um 9 þúsund íbúum. Núna er hins vegar verið að kynna skipulag vegna fyrsta áfangans sem er um 1.270 íbúðir og áætlaður íbúafjöldi um 3.500 manns.
Gert er ráð fyrir því að Blikastaðaland byggist upp á 15-20 árum og er því fjölgunin í takt við það sem hún hefur verið í bænum síðastliðin 20 ár. Forsenda íbúðauppbyggingarinnar er að þarna verði a.m.k. einn grunnskóli í fyrsta áfanganum og tveir leikskólar.
Þá verður hugað að verslun og þjónustustarfsemi í kringum Blikastaðabæinn og þar sem Borgarlínan kemur. Enn fremur erum við að skoða þörf á velferðarþjónustu á svæðinu og íþróttamannvirkjum.

Gamli Blikastaðabærinn mun öðlast nýtt hlutverk.

Mun Borgarlínan ekki frestast eins og aðrar framkvæmdir í tengslum við Samgöngusáttmálann?
Borgarlínan á að koma á þetta svæði í kringum 2033. Tímaáætlanir um Borgarlínu til Mosfellsbæjar standa óbreyttar þótt samgöngusáttmálinn hafi verið lengdur til 2040. Það sem kallast lota 6 hefur verið færð framar í forgangsröðun.

Hvernig verður með umferðina til og frá hverfinu?
Það er mat þeirra sérfræðinga sem hafa gert umferðarmælingar að í fyrsta áfanga byggðarinnar verði hægt að nýta Baugshlíðina. Við höfum hins vegar óskað eftir að Vegagerðin komi að útfærslu á aðkomu að svæðinu og við bindum líka miklar vonir við Sundabrautina, að hún minnki álag á umferðinni um Vesturlandsveg í framtíðinni. Þá mun Borgarlínan breyta miklu í samgöngumálum hverfisins og þeim umferðarhnútum sem Mosfellingar upplifa, s.s. í Ártúnsbrekkunni og víða.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. 

Hvernig verður byggðin hvað þéttleika varðar? Mun ásýnd Mosfellsbæjar breytast?
Samkvæmt tillögunum þá verður þéttast byggt í kringum Blikastaðabæinn þar sem Borgarlínan á að koma og húsin eru hæst næst Vesturlandsveginum. Byggingarsvæðið er mun lægra en Vesturlandsvegurinn og það hefur áhrif á ásýndina.
Stærstur hluti svæðisins mun skarta húsum á 2-3 hæðum í anda sveitarfélagsins. Það verður mikið lagt upp úr grænum svæðum og að ásýnd hverfisins verði sem mest í tengslum við náttúruna. Það er oft talað um þéttingu byggðar í þessu samhengi en þarna er um óbyggt svæði að ræða þannig að hugtakið þétting byggðar á ekki við í þessu tilviki. Þétting er þegar nýjum byggingum er komið fyrir í grónum hverfum.
Einnig hefur Helgafellshverfið verið nefnt til samanburðar en á það ber að líta að það hverfi er allt öðruvísi byggt upp, með þéttleika á milli fjölbýlishúsa og mörgum stórum einbýlishúsalóðum á meðan þetta hverfi mun einkennast af litlum fjölbýlishúsum og smærri sérbýlum.
Við mótun byggðarinnar hefur verið tekið mið af skuggavarpi og sólarstundum, eins og kynningargögnin sýna. Byggðin er almennt höfð lágreist en húskroppar í nokkru návígi hver við annan til þess að brjóta upp vind og skapa æskileg vindþægindi þar sem dvalarsvæðin eru hugsuð. Þessir þættir náttúrunnar, sól og vindur, í bland við landfræðilegar aðstæður og gæði, hafa haft verulega mótandi áhrif á það hvernig húsin standa og snúa.

Er það rétt að þarna verði tæpt bílastæði á hverja íbúð?
Í þessari vinnslutillögu er ekki búið að hanna húsin og eyrnamerkja hverri íbúð fjölda bílastæða. Meðaltöl sýna okkur að bílastæðin eru mismunandi eftir íbúðum. Hönnun í rammahluta aðalskipulags gerði ráð fyrir 1,8 bílastæðum á íbúð í landi Blikastaða.
Hvað verður um gamla Blikastaða­bæinn?
Samkvæmt áætlunum um uppbyggingu Borgarlínu er gert ráð fyrir að hún liggi um Blikastaðaland með stoppi við Blikastaðabæinn. Bærinn mun öðlast nýtt hlutverk verslunar og þjónustu á miðsvæði byggðarinnar. Það er einmitt verið að kalla eftir hugmyndum að nýtingu bæjarins um þessar mundir og er Halldór Halldórsson eða Dóri DNA að vinna með eigendum Blikastaðalands að hugmyndavinnunni.

Hvernig hefur undirbúningurinn að verkefninu verið?
Greiningar, undirbúningur og tillögugerð hafa staðið yfir allt frá árinu 2018. Fjöldi fagaðila hefur komið að vinnu verkefnisins, þar á meðal Alta ráðgjöf, COWI verkfræðistofa, Nordic arkitektar, Efla þekkingarfyrirtæki og landslagsarkitektastofa SLA í Kaupmannahöfn.

Hvernig verður ferlið fram undan?
Núna er verið að leggja fram vinnslutillögu að áfanga 1 í skipulaginu. Það er hægt að senda umsagnir í skipulagsgáttina á mos.is til 10. febrúar og eru íbúar og aðrir áhugasamir hvattir til að senda inn ábendingar. Það verður unnið úr þeim og deiliskipulagið mótað og kynnt vonandi í haust. Þá verður aftur boðað til íbúafundar og opnað verður fyrir athugasemdir um deiliskipulagið á ný.
Í stjórnsýslunni er verið að vinna að viðaukum við uppbyggingarsamkomulagið frá árinu 2022 og enn fremur að áhættugreina fjárfestingargetu bæjarins með tilliti til íbúafjölgunar.
Það er mikilvægt að það sé áframhaldandi vöxtur í bæjarfélaginu, til að greiða fyrir þá innviði sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum en að sama skapi þá þurfum við að vanda okkur og stilla uppbyggingunni miðað við fjárfestingargetu okkar hverju sinni.