Nútíma stjórnsýsla
Þegar núverandi meirihluti í Mosfellsbæ tók við árið 2022 var fljótlega ákveðið að ráðast í úttekt á stjórnsýslu og rekstri með það fyrir augum að bæta þjónustu við íbúa og gera reksturinn skilvirkari.
Strategía, ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í úttektum og umbótum, framkvæmdi úttektina.
Þar var lagður grunnur að nýju skipulagi þar sem horft var á verkefnin út frá áherslum sveitarfélagsins um að efla þjónustu við bæjarbúa í stækkandi sveitarfélagi. Með nýju skipulagi gafst aukið svigrúm til að skerpa á áherslum varðandi stjórnarhætti, efla áhættu- og árangursmat, samhæfa verkefni á milli sviða og deilda, fylgja eftir umbótum og nýta betur þá tækniþróun sem hefur orðið í samfélaginu.
Nýtt svið, menningar-, íþrótta- og lýðheilsusvið, var sett á laggirnar auk skrifstofu umbóta og þróunar en þjónustu- og samskiptadeild var lögð niður.
Undir skrifstofu umbóta og þróunar falla verkefni tengd stafrænni umbreytingu, upplýsingatækni, upplýsingamiðlun, tölfræði og greiningu, sem og innleiðing helstu umbótatillagna sem voru lagðar til í áðurnefndri rekstrarúttekt.
Alls komu fram yfir 70 umbótatillögur í rekstrarúttekt Strategíu sem verið er að innleiða eða verða innleiddar.
Ein af umbótatillögunum var um úttekt á rekstri upplýsingatæknimála Mosfellsbæjar en hún leiddi í ljós að þörf var á talsverðum endurbótum á því sviði. Meðal annars sameining rekstrarumhverfis upplýsingatæknimál í eitt en þau eru fjögur í dag.
Þá hefur verið farið í umfangsmikla vinnu við innleiðingu á stafrænum lausnum en frá ársbyrjun 2023 hafa 33 stafrænar lausnir verið innleiddar, þar af er 27 verkefnum að fullu lokið.
Þessi vinna heldur áfram því hún hefur sýnt að umbóta er þörf. Vinnan fer að mestu leyti fram á bak við tjöldin, vinna sem sést kannski ekki en bætir þjónustuna við bæjarbúa og sparar kostnað til lengri tíma.
Í þessum skipulagsbreytingum hefur verið lögð áhersla á að fjölga ekki stöðugildum að óþörfu. Markmiðið er skilvirkari stjórnsýsla og betri þjónusta við Mosfellinga.
Lovísa Jónsdóttir
Valdimar Birgisson