Nokkur orð um fjárhagsáætlun og kaffisopa
Hin árlega afgreiðsla fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar er eiginlega boðberi hækkandi sólar og jóla ár hvert. Áætlunin var afgreidd á fundi bæjarstjórnar þann 7. desember síðastliðinn.
Reksturinn hefur gengið vel eins og hjá flestum öðrum sveitarfélögum landsins enda efnahagsumhverfið nokkuð hagfellt. Enn skortir þó á að ríkisvaldið komi til móts við sveitarfélögin hvað varðar t.d. málefni fatlaðs fólks og tekjur af ferðamennsku.
Ýmislegt gott er að finna í áætlun næsta árs og sumt af því byggist á tillöguflutningi okkar Samfylkingarfólks fyrr á kjörtímabilinu, s.s. hækkun frístundaávísunar og væntanleg starfsemi Ungmennahúss. Þá eru ýmis atriði sem mikill samhljómur hefur verið um í bæjarstjórninni eins og t.d. aukin þjónusta við fjölskyldur ungbarna hvað varðar dagvistun og lækkun fasteignagjalda hjá tekjuminni eldri borgurum svo fátt eitt sé nefnt.
Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlunina lögðum við Samfylkingarfólk fram nokkrar tillögur sem því miður var hafnað af meirihluta Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks þótt einni væri hleypt breyttri áfram til skoðunar á næsta ári. Þannig virðist sá samstarfsvilji sem við höfum séð við fyrri fjárhagsáætlanir kjörtímabilsins ekki vera enn fyrir hendi, hvað sem lesa má út úr því. Af þessum orsökum sat Samfylkingin hjá við afgreiðslu áætlunarinnar. Tillögur okkar má finna á Facebooksíðunni „Samfylkingin í Mosfellsbæ“ sem og í fundargerð á vef sveitarfélagsins.
Má bjóða þér tíu dropa?
Áherslur í fjárhagsáætlun endurspegla pólitíska afstöðu þeirra stjórnmálaflokka sem hana leggja fram, þ.e. Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Þannig er lækkun útsvarsprósentu um 0,04 prósentustig frekar pólitísk yfirlýsing en aðgerð sem skiptir sköpum fyrir íbúa hvað varðar heimilisbókhald þeirra.
Þessi lækkun þýðir um 120 krónur aukalega á mánuði í vasann hjá launþega með 300 þúsund kr. á mánuði en 800 krónur mánaðarlega í vasa þess sem er með 2 milljónir á mánuði. Með öðrum orðum, þeir tekjuhæstu geta farið á kaffihús og fengið sér tvöfaldan cappuccino mánaðarlega en hinir ná líklega tíu dropum af uppáhellingi. Þessi lækkun útsvars er sýndargjörningur sem missir marks.
Útsvarið er grunnur að þjónustu sveitarfélagsins og meðan enn er þörf á að bæta þjónustuna er ekki tilefni til lækkunar útsvars. Þær 14,4 milljónir sem með þessari ákvörðun eru teknar út úr bæjarsjóði hefðu nýst bæjarbúum mun betur í samfélagslegum verkefnum, t.d. í lækkun leikskólagjalda eins og við gerðum tillögu um, til meira samræmis við það sem gerist í nágrannasveitarfélögum. Þannig hefði Mosfellsbær orðið enn fjölskylduvænni bær, öllum bæjarbúum til hagsbóta.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar munu á nýju ári halda áfram að vinna að góðum málum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Framundan er hátíð ljóss og friðar sem alltaf er jafn kærkomin í amstri skammdegisins. Við sendum bæjarbúum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og farsæld á komandi ári.
Anna Sigríður Guðnadóttir
Ólafur Ingi Óskarsson
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar