Mosfellskt tónlistarfólk styður við mosfellska knattspyrnu
Það er frábært að sjá hversu skemmtilegt samstarf hefur myndast á milli mosfellskra tónlistarmanna og knattspyrnunnar hjá Aftureldingu.
KALEO hefur verið framan á búningum meistarflokks karla síðastliðin þrjú ár en um var að ræða sögulegan samning sem hefur vakið heimsathygli frá upphafi. Þrír af meðlimum Kaleo spiluðu fótbolta með yngri flokkum Aftureldingar og þótti Jökull söngvari nokkuð liðtækur leikmaður.
Samstarfið við Kaleo hefur verið frábært í alla staði, haldnir hafa verið styrktartónleikar fyrir félagið og merki félagsins hefur verið sýnilegt um allan heim.
GDRN og Gildran bættust við
Tónlistakonan Guðrún Ýr eða GDRN er framan á búningum meistarflokks kvenna en Guðrún Ýr spilaði upp alla yngri flokkana með Aftureldingu og lék fyrir meistarflokkinn áður en hún meiddist illa og lagði skóna á hilluna.
Guðrún Ýr er ein vinsælasta tónlistarkona landsins og hefur hún haldið tónleika til styrktar meistaraflokki kvenna.
Í vor bættist svo mosfellska hljómsveitin Gildran í hópinn þegar þeir gengu til samstarfs við Hvíta Riddarann. Gildran var stofnuð árið 1985 og heldur því upp á 40 ára afmæli á næsta ári. Þeir félagar voru útnefndir bæjarlistamenn Mosfellsbæjar 2023. Þess má geta að Gildran samdi Aftureldingarlagið á sínum tíma en lagið hefur fylgt félaginu um árabil.