Mosfellsbær hlýtur viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag

Það var hátíðlegur dagur í Mosfellsbæ þegar ungmennaráð tók við viðurkenningu frá UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag. Viðurkenningarathöfnin fór fram í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ á degi mannréttinda barna en það eru 36 ár síðan Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Ungmennaráð Mosfellsbæjar leiddi viðurkenningarathöfnina með glæsibrag. Meðal viðstaddra voru Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi og formaður stýrihóps verkefnisins, stýrihópur og kjörnir fulltrúar.

Virða og uppfylla réttindi barna
Verkefnið Barnvæn sveitarfélög styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Innleiðingarferlinu er skipt í átta skref sem öll miða að því að virða og uppfylla réttindi barna.
Stýrihópur og fjöldi starfsmanna Mosfellsbæjar hafa unnið að metnaðarfullri aðgerðaáætlun og framkvæmd aðgerðanna sem voru 31 í heildina.

Meðal verkefna voru:
• Aukin sálfræði- og ráðgjafaþjónusta í skólum.
• Samstarf við Bergið sem hefur skapað mikilvægt lágþröskuldaúrræði fyrir ungmenni.
• Handbók fyrir ungmennaráð sem styrkir þátttöku þess í stjórnsýslu.
• Barnvænt hagsmunamat sem hefur verið tekið upp í menningar-, íþrótta- og lýðheilsunefnd.
• Helgafellsskóli er fyrsti skólinn í Mosfellsbæ til að taka þátt í verkefninu Réttindakóli og frístund UNICEF og jafnframt fyrsti samþætti leik- og grunnskóli til að taka þátt í því verkefni á Íslandi.
• Íþróttaverkefni fyrir börn með fötlun, sem er ætlað að auka jöfnuð og aðgengi.
• Innleiðing verkefnisins í Mosfellsbæ hefur staðið yfir í rúm þrjú ár og er Mosfellsbær tíunda sveitarfélagið á landinu til að hljóta þessa viðurkenningu, sem gildir í þrjú ár.

„Ég fagna þessum áfanga og er mjög þakklát ungmennaráðinu okkar sem á mikið hrós skilið fyrir þátttökuna í verkefninu,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri. „Þá vil ég þakka stýrihópnum, verkefnastjóranum og okkar góða starfsfólki fyrir vinnuna við aðgerðaráætlunina.“