Mosfellingur ársins 2025
Mosfellingur ársins 2025 er Jökull Júlíusson, söngvari og lagahöfundur mosfellsku hljómsveitinnar KALEO.
„Að fá þennan titil Mosfellingur ársins er stærsti heiður sem ég hef fengið á ferlinum, ég er þakklátur fyrir að tilheyra þéttum kjarna Mosfellinga og gaman að sjá hvernig meðbyrinn og samstaðan hefur þróast hérna undanfarin ár. Mér þykir mjög vænt um bæinn minn og alltaf gott að koma heim,“ segir Jökull sem á undanförnum árum hefur verið 250–300 daga á ári á tónleikaferðalögum þar sem KALEO hefur verið með um 100 tónleika á ári um allan heim.
Jökull segir það forréttindi að hafa alist upp í Mosfellsbæ og er ánægður með hve vel hefur tekist að halda í bæjarbraginn í samfélaginu þrátt fyrir fólksfjölgun á undanförnum árum.
Gott samstarf með Aftureldingu
KALEO hefur verið í samstarfi með knattspyrnudeild Aftureldingar síðan 2021, verið með merkið sitt framan á búningum liðanna og haldið fjölmörg styrktarkvöld.
„Það hefur verið virkilega gaman og gefandi að fá að taka þátt í samfélaginu á þennan hátt. Ég hef markvisst verið í Aftureldingartreyjunni á tónleikum um allan heim. Treyjan er eftirsótt og við erum að vinna í því þessa dagana að geta haft hana til sölu þegar við erum að spila og stutt félagið með þeim hætti. Þetta verkefni hefur verið ótrúlega gott fyrir Mosóhjartað.“
Mosfellingar fjölmennt á tónleika
„Það er með skemmtilegri upplifunum á ferlinum hjá mér þegar Mosfellingar fjölmenna á tónleika hjá okkur. Að upplifa að um 200 Mosfellingar taki yfir einhverja borg í Evrópu, það er algjörlega einstakt. Allir í Aftureldingartreyjum, Mosfellingar á öllum aldri og mættir til að hafa gaman, maður fær alveg Mosó í æð. Við reynum að skipuleggja það þannig að við getum gefið okkur tíma í hitta hópinn. Það verða klárlega farnar fleiri svona ferðir og ég hvet Mosfellinga til láta svona viðburð ekki fram hjá sér fara.“
Góðgerðarkvöldið Rauðu jólin
Jökull hefur á undanförnum árum staðið fyrir góðgerðarviðburði á aðventunni í Hlégarði sem nefnist Rauðu jólin. Þar rennur allur ágóði til góðs málefnis.
„Ég er lítið heima en reyni að nýta tímann vel þegar ég kem heim og hóa þá gjarnan saman fjölskyldu og vinum. Það var orðinn fastur liður í kringum jólin að hittast, ég fékk svo liðs við mig gott fólk til að gera þennan viðburð stærri og láta gott af mér leiða til samfélagsins. Það hefur gengið ótrúlega vel og skemmtileg kvöldstund þar sem allir mæta í jólapeysu og hafa gaman. Svo er náttúrulega einstakt að fá að gera þetta í Hlégarði sem er að mínu mati hjartað í Mosfellsbæ.“
Ágóðinn í geðheilbrigðisúrræði
„Í ár veittum ég og Róbert Wessman vinur minn Skólahljómsveit Mosfellsbæjar styrk upp á þrjár milljónir til hljóðfærakaupa en þess má geta að Róbert lék með sveitinni á sínum yngri árum. Ágóði kvöldsins sem var fjórar milljónir rann svo til Grænuhlíðar fjölskyldumiðstöðvar sem sérhæfir sig í geðheilbrigðisúrræðum fyrir börn og unglinga og fjölskyldur þeirra.
Við stefnum á að halda þessu áfram og ég er mjög stoltur yfir því hvað við náum að safna miklu og vonandi náum við að vekja athygli og umtal um þau málefni sem við erum að styrkja í hvert sinn.“
Með mörg járn í eldinum
Þó að mikið sé að gera hjá Jökli þá er hann með nokkur ástríðuverkefni á kantinum, hann hefur á undanförum árum tekið þátt í vínrækt og framleiðslu, hannað skartgripi og fleira.
„Tónlistin er samt alltaf númer 1, 2 og 3 og hún krefst mikils af mér, ég er að semja öll lögin, útset þau og tek upp sjálfur, það er mikill tími sem fer í lagasmíð og plötugerð. Mér finnst mjög mikilvægt eftir að hafa verið mikið erlendis á undanförnum árum að geta komið heim og fá að vera hluti af svona samfélagi, því að ræturnar verða enn þá sterkari í fjarverunni,“ segir Jökull að lokum.
Þess má geta að KALEO stefnir á að halda stórtónleika á Íslandi næsta sumar sem gætu orðið í líkingu við vel heppnað Vor í Vaglaskógi sem sló í gegn síðastliðið sumar.



