Mosfellingar taka bílaþvottastöð í Háholti fagnandi

Eftir nokkurra ára hlé opnaði N1 aftur þvottastöð í Háholti í Mosfellsbæ og Guðbergur Björnsson, þjónustustjóri þvottastöðva hjá N1, þakkar góðar viðtökur.
„Við erum að fá rosalega góðar móttökur í Mosfellsbæ. Það er frábært hvað hefur verið mikið að gera.“

Þvottastöðvar og -básar á sjö stöðvum
N1 hefur einnig opnað þvottastöð á Gagnvegi í Grafarvogi og á næstu vikum verða opnaðar sjálfvirkar stöðvar hjá N1 í Stórahjalla í Kópavogi, Lækjargötu í Hafnarfirði, í Keflavík og á Akureyri, og í Holtagörðum verða þvottabásar. Eins er N1 í Mosfellsbæ eini staðurinn þar sem eru bæði básar og sjálfvirk þvottavél.
„Við höfum lagt mikinn metnað í stöðvarnar. Húsnæðið var allt nýlega tekið í gegn. Vélarnar eru nýjar, bæði í þvottavélum og -básum, og við reynum að standa eins vel að þessu og hægt er – eins og N1 er von og vísa, allt snyrtilegt og fínt,“ segir Guðbergur. Hann hvetur fólk til að prófa nýju stöðvarnar.

Vandaðar finnskar vélar
Í sjálfvirku þvottastöðvunum er hægt að velja burstaþvott eða snertilausan þvott, með eða án tjöruhreinsis. Verðið fer eftir því hvers konar þvottur er valinn og er á bilinu 3.090–3.690 kr.
Síðan er ekið inn í þvottastöðina og beðið í bílnum á meðan þvottavélin þvær. „Þetta er finnsk smíði og mjög vandaðar vélar sem hafa verið notaðar lengi á Norðurlöndunum,“ útskýrir Guðbergur. Þvottaefnin eru einnig mjög vönduð og koma frá sama framleiðanda. Flest efnin eru Svansvottuð.
Eftir þvottinn er tilvalið að fá sér kaffi, nasl eða eitthvað ferskt og fljótt hjá Nesti. Þvottastöðvarnar eru ómannaðar og opnar alla daga frá 8 til 24. „Ef eitthvað kemur upp á er vegaaðstoðin okkar til taks,“ segir Guðbergur.