Mín ákvörðun
Ég er nú bara þannig að ég vil vera gerandi í eigin lífi og þess vegna er þetta ákvörðun mín,“ sagði frambjóðandi í stjórnmálaflokki um síðustu helgi eftir að uppstillingarnefnd í flokknum hennar hafði raðað frambjóðendum á lista fyrir komandi kosningar.
Ég er sammála henni. Við erum gerendur í eigin lífi. Við þurfum ekki að fara í gegnum lífið á forsendum annarra. Við búum vissulega í samfélagi og höfum hlutverk, en við þurfum ekki að fylgja hópnum í einu og öllu. Okkur líður best og gerum mest gagn þegar við finnum okkar leið. Og það má skipta um kúrs. Við þurfum ekki að halda okkur á sömu leið út lífið. Það má breyta, það er bara hollt og gott að prófa, meta og breyta til.
Það skiptir ekki öllu máli hvað öðrum finnst um þá leið sem við veljum að fara. Aðalmálið er að við séum sjálf sátt við leiðina okkar. Þetta á við um hreyfingu, svefn og mataræði alveg eins og stjórnmál. Mín viðhorf gagnvart þessari mögnuðu þrenningu hafa breyst í gegnum árin og nálgunin sömuleiðis. Mér líður vel þegar ég hreyfi mig reglulega, en langbest þegar hreyfingin er á mínum forsendum. Ég veit núna hvað gerir mér gott og hvað ekki. Það kemur hugsanlega með aldrinum, en ekki endilega.
Við þurfum að pæla í sjálfum okkur hvað þetta varðar og hugsa sjálfstætt. Er það til dæmis frábær hugmynd að hlaupa mörg hundruð kílómetra með rifinn liðþófa? Er góð hugmynd að keyra sig algjörlega út 2-3 sinnum í viku í tæknilega flóknum styrktar- og úthaldsæfingum? Fjölmiðlar og sjálfskipaðir áhrifavaldar elska öfgar og við hin, flest, fréttir sem snúast um öfgar og hetjusögur. En hvar verða þessar hetjur eftir mörg ár af öfgum? Geta þær hreyft sig? Æft? Leikið við barnabörnin? Hugsum sjálfstætt, finnum okkar leið.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. október 2024