Mikið um að vera í vetrarfríi grunnskólanna
Það var nóg um að vera í vetrarfríi grunnskóla Mosfellsbæjar 16.-19. febrúar síðastliðinn.
Ungmennaráð bæjarins fékk málið til umfjöllunar og kom með afar skemmtilegar hugmyndir að afþreyingu. Starfsfólk íþrótta- og tómstundanefndar, í samvinnu við íþrótta- og tómstundafélög Mosfellsbæjar og félagsmiðstöðina Bólið, útbjó síðan frábæra dagskrá fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Mikið stuð var í sundlaugum og íþróttahúsum bæjarins. Boðið var upp á kennslu í skák og borðtennis, hægt var að fara í Zumba, Yoga, flot, slökun og ilmsána, auk þess sem hin sívinsæla Wipeout braut var sett upp. Bólið sá um sundlaugapartý, Afturelding bauð börnum að koma í fimleika- og körfuboltafjör, taekwondodeildin var með opnar æfingar og handknattleiksdeildin setti upp þrautabraut og æfingar. Hestamannafélagið Hörður bauð krökkum að koma og kynnast hestamennsku, fá að klappa hestunum og láta teyma undir sér. Golfklúbburinn bauð fjölskyldum að spreyta sig í golfi og Skátarnir og Björgunarsveitin Kyndill sáu um fjölskyldugöngu á Úlfarsfell.
Það hafa ekki allir tök á að fara með fjölskylduna í frí þegar skólarnir eru í vetrarfríi. Því er dagskrá sem þessi afar kærkomin og nýttu fjölmargir krakkar, foreldrar, afar, ömmur, frænkur og frændur þetta einstaka tækifæri til að eiga góðar samverustundir í bænum okkar.
Íþrótta- og tómstundanefnd þakkar öllum sem komu að hugmyndavinnu, skipulagningu og framkvæmd þessarar glæsilegu dagskrár kærlega fyrir.
Erla Edvardsdóttir,
formaður íþrótta- og tómstundanefndar.