Metnaðarfull fjárfestingaráætlun
Nýverið samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025. Um er að ræða metnaðarfulla rekstrar- og fjárfestingaráætlun.
Fjárfestingarnar endurspegla þann vöxt sem hefur átt sér stað í Mosfellsbæ síðustu árin en auk þess er nauðsynlegt að huga að viðhaldi eldri mannvirkja. Samtals hljómar fjárfestingaráætlun í A- og B-hluta upp á rúma 4 ma. króna. Þar af nema fjárfestingar í skólum og íþróttamannvirkjum um 62%.
Stærstu einstöku fjárfestingarnar eru bygging nýs leikskóla í Helgafellslandi sem verður tekinn í notkun næsta haust og fyrirhuguð uppbygging á Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Eins er 220 m.kr. áætlaðar vegna framkvæmda á skólalóðum. Gert er ráð fyrir afgangi af almennum rekstri sveitarfélagsins upp á rúmar 700 milljónir.
Íþróttir fyrir alla
Áfram verður haldið með uppbyggingu á Varmársvæðinu, en í áætluninni er gert ráð fyrir að verja um 800 milljónum í nýjan aðalvöll, hlaupabraut og hönnun á þjónustu- og stúkubyggingu. Eins verður frágangur kláraður á íþróttahúsinu við Helgafellsskóla, sem mun létta á álagi á hin íþróttahúsin.
Því til viðbótar verður um 200 milljónum varið í viðhald á íþróttamiðstöðvum. Mikil fjölgun iðkenda og metnaðarfullt barna- og afreksstarf gerir ríka kröfu um viðunandi aðstöðu og verður að sjálfsögðu séð til þess að svo verði áfram í Mosfellsbæ.
Menning eykur lífsgæði
Núverandi meirihluti hefur haft lýðheilsu- og menningarmál í forgrunni og verða engar breytingar þar á í nýsamþykktri áætlun. Hlégarður verður sem fyrr í umsjá bæjarins og hefur það verkefni gengið vonum framan og mikil ánægja skapast í kringum það.
Á árinu 2025 eru um 300 viðburðir áætlaðir í Hlégarði og er það til marks um hve mikilvægt gott samkomuhús er fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ. Tæpar 270 milljónir fara í menningarmál á árinu 2025 og ber þar helst að nefna rekstur bókasafnsins, Í túninu heima og fleiri spennandi viðburði af hálfu bæjarins.
Bærinn í nýju ljósi
Það verður ekki slegið slöku við í endurnýjun á götulýsingu bæjarins, alls verður varið um 70 milljónum í að LED-væða bæinn á árinu 2025. Verkefnið er kostnaðarsamt en sparar sveitarfélaginu til lengri tíma í formi lægri rekstrarkostnaðar. Það er mjög mikilvægt að horfa til lengri tíma í ákvarðanatökum sem þessum og hefur núverandi meirihluti tamið sér það verklag.
Þrátt fyrir metnaðarfulla fjárhagsáætlun þá hefur núverandi meirihluti B-, C- og S-lista lagt mikla áherslu á ábyrga fjármálastjórn og að rekstur bæjarins sé sjálfbær. Það fylgir því mikil ábyrgð að stýra sveitarfélagi og sér í lagi þegar vöxturinn er mikill. Því þarf að huga vel að forgangsröðun verkefna, það gefur auga leið að í því efnahagsumhverfi sem við búum við í dag er aðhald nauðsynlegt.
Fjárhagsáætlunin er aðgengileg á mos.is og hvetjum við bæjarbúa til að kynna sér hana, hægt er að fá mjög góða og myndræna yfirferð á helstu atriðum í greinargerð með fjárhagsáætlun.
Halla Karen Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi B-lista
Aldís Stefánsdóttir bæjarfulltrúi B-lista
Sævar Birgisson bæjarfulltrúi B-lista
Örvar Jóhannsson bæjarfulltrúi B-lista