Menningin, sagan, Álafoss og ullin
Í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Í túninu heima leitar menningin á hugann.
Á bæjarhátíðinni birtist bæjarmenningin skýrt. Bæjarbúar, félög og fyrirtæki taka þátt með ýmsum viðburðum og uppákomum sem draga til sín bæði okkur íbúana og aðra gesti. Við hittum nágranna á förnum vegi og eigum jákvæð samskipti við fólk sem við höfum kannski aldrei hitt áður. Mosfellsbær heldur utan um hátíðina og leggur mikinn metnað, vinnu og talsverðan kostnað í að allt fari fram á sem bestan máta.
Menning og menningarlíf í Mosfellsbæ er fjölbreytt og alls konar á öllum árstíðum og það er staðreynd að öflugt menningarlíf á gríðarlegan þátt í jákvæðum og uppbyggilegum bæjarbrag. Okkur langar að nefna hér til sögunnar örfá af þeim verkefnum sem meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur unnið að og komið í framkvæmd á yfirstandandi kjörtímabili. Hlégarður er kominn heim og þar er fjölbreytt starfsemi flesta daga ársins. Í Hlégarði hafa á kjörtímabilinu verið haldin árleg Sögukvöld sem slegið hafa algjörlega í gegn. Þar hafa verið teknir fyrir vissir þættir í sögu sveitarfélagsins og fólksins sem byggði þennan bæ. Brúarland er gengið í endurnýjun lífdaga og iðar af lífi alla vikuna undir stjórn Félagsstarfs aldraðra. Báðar byggingarnar hafa fengið umfangsmikið og löngu tímabært viðhald og upplyftingu þó enn sé nokkuð í land að þeirri vinnu ljúki.
Álafosskvos
Ríkur þáttur í menningar- og atvinnusögu Mosfellsbæjar er starfsemi ullarverksmiðju í Álafosskvos, lífið í kringum hana og áhrif hennar á þróun samfélagsins. Vagga íslensks ullariðnaðar var í kvosinni og saga ullariðnaðarins í Álafosskvos er bæjarsaga Mosfellsbæjar. Í Álafosskvos hefur varðveist sérstakur staðarandi í gegnum tíðina þótt ullariðnaður hafi löngu lagst af og staðurinn gegnir enn mikilvægu hlutverki í menningar- og félagslífi bæjarbúa. Heildarmynd svæðisins hefur haldist merkilega vel eins og kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð.
Í vinnu við nýja atvinnustefnu Mosfellsbæjar á kjörtímabilinu var unnið sérstaklega með hugmyndir um áfangastaðinn Álafosskvos. Það kom glöggt í ljós í vinnustofu, á opnum fundi og samtölum við hagaðila að í huga langflestra var Álafosskvosin mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í bænum í ljósi þeirrar miklu og sérstöku sögu sem þar býr.
Ný tækifæri í ullinni
Í gegnum tíðina hafa margir rætt að halda þurfi sögu Álafossverksmiðjunnar á lofti og sýna henni þann sóma sem hún á skilið. Safn
um sögu starfseminnar hefur oft verið nefnt. Með safni eða sýningu er sagan ekki bara varðveitt heldur opnast möguleikar á að miðla henni líka til ungra Mosfellinga sem eldri, til gesta og gangandi. Það er því gríðarlega ánægjulegt að nú, þegar Mosfellsbær hefur unnið grunnvinnuna sem birtist í nýrri atvinnustefnu, skýrslu um áfangastaðinn Álafosskvos sem unnin var með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og tillögu um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð, komi fram ósk frá nýjum eigendum jarðhæðarinnar í verksmiðjuhúsinu um samstarf við uppbyggingu sýningar um sögu starfseminnar að Álafossi. Hugmyndir eigenda eru mjög áhugaverðar en aðkoma bæjarins yrði einungis sú að eiga og reka framangreinda sýningu inni í húsnæðinu þar sem sögu ullarinnar og ullarvinnslu í Álafosskvos yrðu gerð góð skil. Bærinn kæmi ekki að rekstri annarrar starfsemi á staðnum.
Á fundi bæjarráðs 21. ágúst var samþykkt að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við nýja eigendur jarðhæðar verksmiðjuhússins í Álafosskvos um samstarf um uppbyggingu safns um sögu Álafosskvosarinnar og ullariðnaðarins á Íslandi á jarðhæð verksmiðjuhússins. Markmið samstarfsins er að lyfta ásýnd Álafosskvosarinnar, varðveita söguna og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn.
Í þessu samstarfi yrðu fólgin mikil tækifæri fyrir Mosfellsbæ.
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingarinnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar