Meira og betra sjálfstraust, hver vill það ekki?

Lóa Björk Kjartansdóttir

Í vetur hefur starf Powertalk deildarinnar Korpu verið fjölbreytt og skemmtilegt. Starf samtakanna gengur út á sjálfstyrkingu og að auka sjálfsöryggi fólks.
Það er mismunandi hvar fólk stendur þegar það byrjar. Margir eiga erfitt með að tjá sig fyrir framan hóp af fólki. Sumir eiga ekki í neinum vandræðum með að standa upp og láta ljós sitt skína á vinnufundum eða brúðkaupum. En myndu koma efni sínu enn betur og faglegar til skila með æfingu og markvissum undirbúningi. Það eiga allir erindi í starfið, því hver og einn vinnur að því að styrkja sjálfan sig.

Það er margsannað að fólk sem stendur í ræðustól þarf að hafa nokkur atriði í huga ef það vill að áheyrendur taki eftir og muni það sem verið er að koma á framfæri. Það er ekki alltaf nóg að hafa þor til að standa upp, þótt það sé vissulega fyrsta skrefið og mikilvægt.
Starf Korpu gengur út á að fræða fólk og gefa því tækifæri til að flytja ræður og kynningar. Þannig öðlast fólk öryggi og sjálfstraust til að flytja efni á vinnufundum eða skólakynningum. Því æfingin skapar meistarann. Þegar fólk hefur reynslu af því að standa í ræðustól kemur það betur undirbúið og er afslappaðra. Áheyrendur í sal njóta betur og taka betur eftir þegar kynning eða ræða er flutt af fólki sem veit hvað það ætlar að segja og hefur undirbúið efnið og flutning vel.

Starfið gengur ekki bara út á að koma og flytja ræðu. Fólk kemur í samtökin til að öðlast þekkingu á fundarsköpum og fær tækifæri til að stjórna fundum, taka að sér viðburðastjórnun og skipuleggja einstaka fundi svo fátt eitt sé nefnt.
Starfið gengur út á jafningjafræðslu. Þeir sem hafa verið í samtökunum í nokkurn tíma leiðbeina og gefa endurgjöf til þeirra sem koma nýir. Í samtökin hefur fólk komið úr öllum áttum og þannig hefur tengslanet félaga stækkað. Margir eignast vini til lífstíðar því hópurinn verður þéttur og vinnur vel saman.

Ef þú hefur verið að velta fyrir þér möguleikum til að styrkja þig á þessu sviði þá er tilvalið að mæta á fund hjá Korpu. Þann 4. mars kemur Ingveldur Ýr frá Þekkingarmiðlun á fundinn og mun flytja erindið „Styrkari og öruggari rödd“. Við hvetjum fólk til að mæta og kynna sér samtökin og deildina hér í Mosfellsbæ. Gestir eru ávallt velkomnir á alla fundi.

Fundir Korpu eru fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði klukkan 20:00, í Safnaðarheimili Lágafellssóknar, Þverholti 3 á 2. hæð. Sendu okkur póst ef þú vilt frekari upplýsingar um starfið á korpa@powertalk.is

Lóa Björk Kjartansdóttir