Með þakklæti í hjarta og trausti til framtíðar
Nýtt ár er gjarnan tími uppgjörs og íhugunar. Fyrir mig er þetta ár einnig tími þakklætis – fyrir samstarfið, traustið og þau tækifæri sem mér hafa gefist til að starfa í þágu Mosfellsbæjar. Um leið er þetta tími mikilvægrar og persónulegrar ákvörðunartöku.
Sterkt samstarf skilar árangri
Ég er afar stolt af þeim frábæra árangri sem meirihluti Viðreisnar, Framsóknar og Samfylkingar hefur náð á þessu kjörtímabili. Samstarf okkar hefur verið bæði einstakt og afar gefandi. Ekki aðeins faglegt heldur einnig skemmtilegt og byggt á gagnkvæmu trausti og virðingu.
Við oddvitarnir höfum verið samstíga og sú gleði og sá samhugur sem ríkir í samstarf okkar hefur án efa átt stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu. Slíkt samstarf er ekki sjálfgefið í stjórnmálum og ég tel það forréttindi að hafa verið hluti af þessum meirihluta.
Það var einnig mikil lukka fyrir Mosfellsbæ að fá Regínu Ásvaldsdóttur til starfa sem bæjarstjóra. Framlag hennar til þeirra umbóta sem við höfum innleitt á kjörtímabilinu er ómetanlegt. Hún hefur leitt stjórnsýsluna af festu, fagmennsku og framtíðarsýn og átt stóran þátt í því að hrinda fjölmörgum mikilvægum verkefnum í framkvæmd.
Verkefnin sem við höfum lokið eða komið af stað eru ótal mörg, fleiri en hægt er að telja upp í stuttri grein. Engu að síður vil ég nefna nokkur sem ég veit að hafa verið bæjarbúum til mikilla bóta. Verkefnið Börnin okkar stendur upp úr, en auk þess mikil og metnaðarfull uppbygging á Varmársvæðinu, flutningur félagsstarfs eldri borgara í Brúarland og yfirtaka bæjarins á rekstri Hlégarðs. Þetta eru verkefni sem ég er einstaklega stolt af og endurspegla þá áherslu sem við höfum lagt á velferð, menningu og samfélagslega samheldni.
Þá eru einnig mörg verkefni sem eru kannski ekki sýnileg út á við en eru ekki síður mikilvæg. Fjöldi umbótaverkefna sem snúa að innra starfi stjórnsýslunnar og gagnadrifinna ákvarðanataka, ekki síst þegar kemur að fjármálum bæjarfélagsins.
Mosfellsbær er í dag eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem rekur A-hluta sinn án þess að vera háður byggingarréttargjöldum. Slíkur árangur kemur ekki af sjálfu sér heldur er afrakstur markvissrar stefnu og ábyrgra ákvarðana.
Átta ár í þjónustu Mosfellsbæjar
Undanfarin átta ár hef ég starfað ötullega í þágu Mosfellsbæjar, fyrst sem varabæjarfulltrúi og nefndarmaður í ýmsum nefndum en frá árinu 2022 sem bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar. Þá hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum sem kjörinn fulltrúi eins og að sitja í stjórn Strætó bs. Allt hefur þetta starf verið í senn spennandi og gefandi en líka ábyrgðarmikið.
Kjörtímabilið hefur þó ekki allt verið blómlegt hjá mér persónulega. Í ágúst 2024 urðum ég og fjölskylda mín fyrir því áfalli að sonur minn lést langt fyrir aldur fram. Starf bæjarfulltrúa er aukastarf sem flestir bæjarfulltrúar sinna samhliða annarri vinnu. Slík vinna krefst tíma og orku sem ég sé ekki fram á að geta gefið af mér til lengri tíma litið.
Ég hef því tekið þá ákvörðun að gefa ekki aftur kost á mér til að leiða lista Viðreisnar í komandi sveitarstjórnarkosningum heldur helga mig fjölskyldunni og treysta öðru góðu og öflugu fólki til að leiða fram sterkan lista Viðreisnar í kosningunum í vor. Þessa ákvöðun hef ég tekið með hjartað fullt af þakklæti og stolti og fullu trausti til áframhaldandi bjartrar framtíðar Mosfellsbæjar.
Lovísa Jónsdóttir,
oddviti Viðreisnar og bæjarfulltrúi




