Matur í Mos

Heilsumolar_10jan2019

Það er að koma nýr matsölustaður í Mosfellsbæ. Leysir Hvíta Riddarann af hólmi. Hvernig staður? Pizzustaður. Skemmtileg nýjung. Akkúrat það sem við þurftum, Mosfellingar. Staður sem afgreiðir pizzur og það mjög hratt. Ég er hrikalega spenntur fyrir þessu. Það hefði alls ekki passað að fá í miðbæ Mosfellsbæjar stað sem ekki leggur áherslu á skyndibita. Stað sem byði upp á nýmóðins hollustu. Það yrði líklega of mikið rót fyrir okkur. Blik Bistro & Grill er reyndar að hrista aðeins upp í okkur með því að bjóða upp á fjölbreyttari mat og það er vel, en miðbær Mosfellsbæjar hleypir engum nær sem ekki heldur sig við grunnatriðin í matarmenningu okkar. Pizzabær eins og skáldið orti. Sem rímar kannski ekkert sérstaklega vel við það heilsueflandi samfélag sem við segjumst vera. Pælum í þessu íbúar og látum í okkur heyra ef við viljum fá öðruvísi staði og starfsemi í bæinn. Þetta gerist ekki af sjálfu sér.

Nóg um mat. Minn draumur er að árið 2019 verði árið sem Mosfellsbær tekur risaskref í uppbyggingu á íþróttafélaginu sem sameinar okkur. Aftureldingu. Iðkendum félagsins fjölgar eins og kanínum í Reykjalundarskógi, sem er frábært, enda fátt eins gott og skipulagðar íþróttir þegar kemur að forvörnum. Afturelding með sínar ellefu deildir er vettvangurinn sem bæjaryfirvöld ættu leggja allt sitt stolt í að hlúa að og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að félagið geti haldið áfram að vaxa og dafna. Það er ekki nóg að setja nokkra plástra á sár öðru hvoru. Það þarf að hugsa miklu stærra og bjóða í okkar ört vaxandi bæjarfélagi upp á fyrsta flokks íþróttaðstöðu – aðstöðu þar sem iðkendur geta skipt um föt, farið í sturtu eftir æfingar og tengst hver öðrum í notalegri félagsaðstöðu. Allar deildir félagsins vilja þetta, félagið vill þetta, bæjarbúar vilja þetta. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. janúar 2019