Málar steina á fellin
Það er óhætt að segja að Mosfellsbær sé umkringdur dásamlegri náttúruparadís, fellin okkar og fjöllin, fossarnir og heiðarnar. Mosfellingar eru duglegir að nýta þessa auðlind hvort sem er gangandi, hlaupandi, hjólandi eða ríðandi út.
Farsælt samstarf hefur verið á milli Mosfellsbæjar og Skátafélagsins Mosverja undanfarin ár um að auðvelda Mosfellingum að nýta sér útivistarsvæði í kringum bæinn til útivistar og gönguferða. Stikaðar hafa verið yfir 90 km af gönguleiðum í kringum Mosfellsbæ.
Á svæðinu eru fjölmargir vegprestar og upplýsinga- og fræðsluskilti. Á þessum skiltum eru staðarheiti, vegalengdir og ýmsar fróðlegar upplýsingar, bæði landfræðilegar og sögulegar. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og því ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Göngukortið má nálgast á vef Mosfellsbæjar, á bókasafninu og í sundlaugunum.
Glaðlegir steinar með spakmælum
Margir göngugarpar hafa orðið varir við skemmtilega nýjung á nokkrum af fellunum okkar. Það eru málaðir steinar í glaðlegum litum með skemmtilegum tilvitnunum. Þessir steinar gleðja og hvetja útivistarfólk. Mosfellingur fór á stúfana í leit að þeim sem væri að koma þessum steinum fyrir. Sú leit skilaði því að það er kona hér í bæ sem er að dunda sér við þetta skemmtilega verkefni, steinakonan kýs að vera nafnlaus og halda áfram að gleðja aðra sem ganga sömu leiðir og hún.
Mosfellingur hvetur alla til að skella sér í fellagöngu til að skoða þessa skemmtilegu steina og þakkar um leið nafnlausu steinakonunni fyrir sitt skemmtilega framlag.



