Lýðræðisveisla í Mosfellsbæ
Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ heldur prófkjör laugardaginn 31. janúar, þar sem kosið verður um fyrstu átta sæti á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Prófkjör eru gjarnan kölluð lýðræðisveisla og sú lýsing á vel við hér. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir hafa boðið sig fram og sýna með því vilja til að leggja sitt af mörkum í þágu samfélagsins okkar.
Ég heiti Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson og býð mig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Á síðasta kjörtímabili hef ég tekið virkan þátt í bæjarmálum og setið í umhverfisnefnd, skipulagsnefnd og fræðslunefnd Mosfellsbæjar. Sú reynsla hefur veitt mér dýrmæta innsýn í starfsemi bæjarins og þau tækifæri og áskoranir sem fram undan eru.
Mosfellsbær hefur um árabil verið eftirsóttur bær fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Það er þó ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Við þurfum markvisst að vinna að því að halda í þau gæði sem gera bæinn okkar sérstakan: góða skóla og leikskóla, öflugt tómstunda- og íþróttastarf, góða þjónustu og sterkt samfélag. Þá skiptir nálægð við náttúruna og fjölbreyttar útivistarperlur bæjarins miklu máli og er einn af styrkleikum Mosfellsbæjar sem vert er að hlúa að.
Mosfellsbær er bær þar sem fólk á öllum aldri vill búa og vera. Til þess að svo megi áfram vera þurfum við að hlusta á bæjarbúa, taka ábendingum þeirra alvarlega og byggja ákvarðanir á samráði og trausti. Þannig skapast samfélag þar sem fólki líður vel og hefur trú á framtíðinni.
Fram undan eru stór og spennandi verkefni: uppbygging nýrra hverfa, bætt þjónusta, aukin tækifæri fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur og áframhaldandi uppbygging öflugs og ábyrgs samfélags. Til að takast á við þessi verkefni þarf bæði reynslu og ferska sýn, skýra framtíðarsýn og góða samvinnu.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær haldi áfram að vaxa og dafna, af ábyrgð, framsýni og í góðu samtali við bæjarbúa.
Saman gerum við góðan bæ enn betri.
Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson.
Frambjóðandi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ




