Ljótir skór, sterkir fætur
Ég fæ reglulega að heyra að ég gangi í ljótum skóm. Það er mögulega eitthvað til í því, þetta er auðvitað smekksatriði. Það sem einum finnst ljótt, finnst öðrum fallegt. Skór eru eins og tónlist. Mögnuðustu tónleikar sem ég hef upplifað voru með Sigur Rós í Bjarnarfirði á Ströndum fyrir nokkrum árum. Útitónleikar í göldróttu veðri. Sumum viðstöddum fannst minna til koma. Náðu engri tengingu við hljómsveitina. Á sama hátt tengja sumir við skóna mína, aðrir barasta alls ekki.
Ljótu skórnir snúast ekki beinlínis um fagurfræði, heldur form. Þeir eiga það sameiginlegt að vera þunnbotna, nánast án-botna, og eru yfirleitt breiðir að framan. Það er engin stuðningur í skónum, engin dempun, engin innlegg. Formið gerir að verkum að fæturnar ná góðri tengingu við jörðina og tærnar eru ekki kramdar saman heldur eru óheftar í skónum og ná þannig að grípa í jörðina. Þetta styrkir fæturna, þeir verða hreinlega að styrkjast þegar stuðningurinn er enginn.
Ég kynntist svona skóm fyrir 14-15 árum og hef í mörg ár ekki gengið í öðruvísi. Spariskór, við hátíðleg tækifæri, eru undantekning. Ástæðan fyrir því að ég fór þessa skóleið í lífinu er einföld. Ég var með mjög flatar iljar sem barn, man eftir heimsókn til læknis sem sagði „Þetta á alltaf eftir að verða til vandræða, ungi maður, sérstaklega þegar þú verður eldri.“ Hjá honum fékk ég hnausþykk innlegg sem ég gekk með í mörg ár, alltof mörg. Fæturnir voru til vandræða þangað til ég henti innleggjunum og byrjaði að fikra mig inn í þunnbotna skóheiminn. Ekki bara hafa fæturnir styrkst, þeir hafa líka breyst, flötu fæturnir heyra sögunni til.
Fyrir þá sem hafa áhuga á ljótum skóm og sterkum fótum mæli ég með því að byrja rólega, fæturnir þurfa tíma til að venjast því að fá að ganga aftur á náttúrulegan hátt.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. ágúst 2020