Líkaminn í rúst

Heilsumolar_Gaua_9nov

Ég hlustaði á viðtal við athafnakonu á rúmlega miðjum aldri í gær. Hún var spræk í anda og ánægð með það sem hún hafði fengist við um ævina. Það tengdist mest þjónustu og rekstri veitingastaða.

En það stakk mig að heyra hana segja „Líkaminn er náttúrulega í rúst. Maður vann svo mikið og gerði ekkert til að sinna líkamanum þegar maður átti frí. Ég hefði auðvitað átt að gera það, fara í sund, liðka mig og svona“. En hún gerði það ekki. Eins og svo margir aðrir. Og þarf að taka afleiðingunum af því í dag.

Ég hitti fólk í hverri viku sem segir það sama. „Ég veit alveg að ég þarf að hreyfa mig, ég bara kem mér ekki í það.“ Hvaða rugl er þetta eiginlega? Af hverju gefa svona margir skít í eigin heilsu og heibrigði? Er betra að vinna yfir sig og eyða svo síðustu áratugum, já áratugum, ekki árum, ævinnnar í að gera ekki það sem manni langar til af því að heilsan leyfir það ekki. Og láta aðra sjá um sig, hjúkra sér og halda manni gangandi. Í mínum huga er þetta ábyrgðarleysi og langt frá því að vera til fyrirmyndar. Það er til fyrirmyndar að taka ábyrgð á eigin heilsu. Sinna sjálfum sér þannig að maður geti sinnt öðrum.

Ef þú ert í rugli í dag hvet ég þig til að rífa upp sokkana, henda þér í skó og fara út úr húsi. Farðu í langan göngutúr. Njóttu náttúrunnar. Klæddu þig vel ef veðrið er vont. Ekki detta í afsakanir og aumingjaskap þótt það sé kalt. Notaðu göngutúrinn til að hugsa um þig og þína heilsu. Hvernig þú ætlar að hreyfa þig reglulega. Koma þér í form. Njóta þessa að vera á lífi. Hraust/ur. Hress. Lifandi. Þú getur þetta!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. nóvember 2017