Lífshlaupið í febrúar – Sameinumst í hreyfingu og hvatningu!

Það er alltaf líf og fjör í Mosfellsbænum.
Við Halla Karen og Berta, þjálfarar 60 ára og eldri hérna í bænum, höfum hvatt okkar frábæru hópa til þátttöku í Lífshlaupinu 2025. Það hófst 5. febrúar og stendur yfir í þrjár vikur.
Okkar markmið eru skýr, að hreyfa okkur saman, hvetja hvert annað áfram og sýna fram á að aldur er engin fyrirstaða þegar kemur að heilsueflingu.

Við erum ótrúlega stoltar af okkar öflugu þátttakendum. En nú hafa þegar yfir 100 einstaklingar skráð sig til leiks í Lífshlaupinu! Þetta er ekki bara metþátttaka heldur líka mikilvæg áminning um hvað hreyfing skiptir miklu máli fyrir líkamlega, andlega sem og félagslega heilsu.
Til að gera þetta enn skemmtilegra höfum við skipulagt innanbæjarkeppni á milli hópanna okkar í Varmá og World Class. Þessi keppni er ekki bara til að bæta stigatöfluna heldur til að skapa aukna samheldni, gleði og jákvæða hvatningu.

Hvatning til bæjarbúa
Við viljum nýta tækifærið og hvetja ykkur öll sem þekkið þessa frábæru þátttakendur, hvort sem það eru vinir, fjölskyldumeðlimir eða nágrannar, að hvetja þau áfram. Sendið þeim jákvæða orku, bjóðið þeim í göngutúr, eða jafnvel skráið ykkur sjálf í Lífshlaupið og verið með!
Lífshlaupið er frábært tækifæri til að bæta hreyfingu inn í daglega rútínu, kynnast nýju fólki og finna kraftinn sem felst í því að hreyfa sig saman.
Við vonumst til að sjá sem flesta á hreyfingu í bænum á næstu vikum! Hvort sem það er í göngutúr, á hlaupum, í leikjum eða í ræktinni. Tökum þátt saman, styðjum hvert annað og höldum áfram að búa í heilsueflandi samfélagi.

Með hreyfikveðju,
Halla Karen & Berta,
þjálfarar