Lífið hefur verið dásamlegt í Laxnesi
Liðin eru 50 ár síðan Hestaleigan í Laxnesi í Mosfellsdal hóf starfsemi en hún er fyrsta hestaleigan hér á landi með skipulagðar ferðir og sú elsta sem er enn starfandi.
Saga fyrirtækisins er um margt merkileg og áhugaverð. Í fyrstu var starfsemin smá í sniðum en óx og dafnaði jafnt og þétt og er nú á dögum veigamikill þáttur í íslenskri ferðaþjónustu.
Ruth Örnólfsdóttir kíkti í heimsókn til Heiðu og Póra eins og þau eru ávallt kölluð. Þau renndu með henni yfir sögu fyrirtækisins, bæði í máli og myndum.
Jörðin Laxnes stendur ofarlega í Mosfellsdal norðan Þingvallavegar. Árið 1967 fluttu ung hjón úr Reykjavík, Ragnheiður og Þórarinn, að Laxnesi. Þeirra beið mikil vinna þar sem íbúðarhúsið á staðnum var í mikilli niðurníðslu, rúður brotnar og jafnvel gekk sauðfé þar um gólf. Eftir að þau fluttu inn létu þau timburklæða húsið. Enginn hiti var á því þar sem heitavatnsleiðslan hafði verið fjarlægð svo þau kyntu húsið í fyrstu með olíu. Köldu vatni var hins vegar dælt úr brunni skammt frá Köldukvísl.
Ævintýri handan við hornið
Þessir nýju Dalbúar höfðu miklar og nýstárlegar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar en draumurinn var að opna sveitaklúbb. Þau hugðust útbúa útivistarsvæði með alls kyns afþreyingu, svo sem sundlaug, gufubaði, golfi, gönguferðum og hestaleigu.
Farið var í að leggja níu holu golfvöll á heimatúninu og var starfræktur golfklúbbur í Laxnesi í rúm fimm ár. Meðfram rekstri golfklúbbsins þróaðist annars konar starfssemi sem þá þótti mikil nýlunda.
Tímar golf og næturklúbbs í Laxnesi runnu sitt skeið og golfvöllurinn breyttist í beitarhaga. Ekkert varð úr annarri afþreyingu ef undan er skilin hugmyndin um hestaleiguna. Mörgum þótti hún fáránleg í fyrstu, meðal annars vegna þess að Laxnes væri of langt frá Reykjavík og holóttur malarvegur var alla leið. Fáa grunaði þá hvaða hestaævintýri beið manna í Laxnesi handan við hornið.
Keypti bókina um járningar
„Það má segja að starfsemi okkar hafi byrjað fyrir slysni þegar við vorum að byrja á þessu árið 1968,“ segir Póri. „Fyrrum blaðafulltrúi hjá Loftleiðum, Sigurður Magnússon, sem starfaði með mér þar hafði samband við mig og bað mig um að taka á móti hópi fólks og fara með upp eftir á hestbak sem ég og gerði og þannig byrjaði boltinn að rúlla.
Í fyrstu voru aðeins sex hestar hér á leigunni og um langt skeið var eingöngu opið á sumrin en þó ekki daglega. Það þurfti að járna hestana og engir járningamenn á þessum tíma svo það var ekkert annað að gera í stöðunni en að kaupa sér bókina um járningar og lesa sér til.
Við vinirnir Flosi Ólafsson og Jóhann í Dalsgarði fórum oft í hestaferðir saman um landið. Ég lærði mikið af þeim sem kom sér mjög vel síðar í lengri hestaferðum mínum með erlenda gesti.“
Riðið upp að Tröllafossi
„Viðskiptavinir okkar voru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn. Þeir voru sóttir til Reykjavíkur og svo höfðum við unglinga til aðstoðar í ferðunum.
Mest var riðið upp að Tröllafossi í Leirvogsá en þar er stórfenglegt gil og margbreytilegt landslag sem mætir manni hvarvetna. Fossinn er líka merkilegur fyrir þær sakir að hann er á náttúruminjaskrá.
Þegar fram liðu stundir bættust aðrar reiðleiðir við, allt eftir getu, tíma og óskum viðskiptavinanna. Það eru í raun hægt að segja að það séu óteljandi reiðleiðir frá Laxnesi. Á meðan á uppbyggingu fyrirtækisins stóð störfuðum við Heiða líka annars staðar, ég var við kennslu í Gagnfræðaskólanum í Mosfellsbæ og Heiða á Tjaldanesi.“
Hestamannafélagið Neisti
Meðfram hestaleigunni var starfrækt tamningastöð um skeið og einnig voru hross á fóðrum. Stóru fjósi var breytt í hesthús og hin geysistóra hlaða nýttist einnig vel fyrir þessa nýju starfsemi.
Hægt var að fara í hestakaup á staðnum. Þá komu menn með eigin hest og gátu fengið hentugri hest í staðinn en hinn var þá tekinn upp í. Starfsemi þessi fór fram undir nafninu Hestamannafélagið Neisti sem nefnt var eftir fyrsta hestinum sem Póri eignaðist. Hugsunin með þessu var svona svipuð eins og að reka bílasölu þar sem hægt væri að koma með gamla bílinn og fá sér einn kraftmeiri í staðinn.
Þetta var virðingarverð þjónusta fyrir þá sem unnu hestaíþróttinni en höfðu ekki tök á að sinna henni á annan hátt, en þurftu á þessari fyrirgreiðslu að halda.
Undir lok 8. áratugarins lögðu tamningastöðin og hestasalan upp laupana en hestaleigan var komin til að vera og er enn í dag starfrækt af miklum krafti.
Með reiðskóla í Viðey
Hestaleigan Laxnesi hefur einnig verið með starfsemi utan heimabyggðar. Um hríð var boðið upp á fastar ferðir til Þingvalla og þegar nær dró aldamótum var reiðskóli á vegum leigunnar í Viðey sem skapaði mikið líf í eynni. Í nokkur sumur voru einnig í boði sex daga langferðir. Í þessum ferðum voru 6-10 knapar en vistir fluttar á 2-3 trússhestum.
Einnig hefur verið leitað til leigunnar þegar mikið stendur til, til dæmis riðu meðlimir hljómsveitarinnar Skriðjökla á hestum frá frá Laxnesi árið 1986 þegar útvarpsstöðin Bylgjan var opnuð. Eins hafa hestar frá Laxnesi birst í nokkrum bíómyndum eins og Game of Thrones.
Hestaleigan varð að ævistarfi Heiðu og Póra og hafa börn þeirra, Dísa f. 1962 tölvunarfræðingur og kennari, Þórunn Lára f. 1968 dýralæknir og Haukur Hilmar f. 1975 framkvæmdastjóri hestaleigunnar öll komið mikið við sögu í uppbyggingu fyrirtækisins.
Hugmyndin rann út í sandinn
Á 9. áratugnum þegar Póri hugði á hrossaútflutning rak hann sig á veggi. Hann fékk fyrirspurn frá Belgíu um útflutning á um 400 hestum á fæti til kjötvinnslu en þá skarst Samband íslenskra samvinnufélaga í leikinn og gerði athugasemdir við að aðrir en Sambandið flyttu út hesta. Þeir kváðust vera með einkaleyfi á útflutningi á öllu kjöti svo ekkert varð úr þessari hugmynd að sinni.
Seint á áratugnum hugði Póri á útflutning á um 40 hestum til Bandaríkjanna en aftur skarst Sambandið í leikinn og hugmyndin rann út í sandinn.
Flutti út sýningarhesta til Hollywood
Póri var þó ekki af baki dottinn varðandi útflutninginn og árið 1992 flutti hann út sýningarhesta til Bandaríkjanna en þar var tiltölulega fátt um íslenska hesta. Fyrirhugað var að að taka þátt í hestasýningu í útjaðri Hollywood eða „The L.A. Agent Equestrian center“ sem er eins konar Víðidalur Los Angeles borgar. Knaparnir voru ekki af verri endanum og sumir þeirra skipuðu íslenska landsliðið á þeim tíma.
Aðdragandi sýningarinnar var sá að maður að nafni Michael Solomon forstjóri Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins hafði verið við laxveiðar hér á landi. Í einni af ferðum sínum kynntist hann íslenska hestinum í gegnum hestaleiguna í Laxnesi. Kunningsskapur Michaels og Póra leiddi síðar til þess að vegna áhrifa Michaels var fengið inni á sýningum sem voru haldnar á nokkrum stöðum og vöktu athygli fjölmiðla. Póri var m.a. tekinn í viðtal hjá sjónvarpsstöðvunum CBS og CNN.
Íslenski hesturinn vakti alls staðar óskipta athygli og var jafnan hápunktur sýningarhaldsins. Í kjölfarið hófst mikill útflutningur á hestum til Bandaríkjanna.
Reyndi á samspil manns og hests
Þol og þrek íslenska hestsins hefur ávallt verið áhugamál Póra og skipulagði hann þolreiðarkeppni að erlendri fyrirmynd í samvinnu við Helga Sigurðsson dýralækni.
Fyrst var efnt til þolreiðar árið 1988 og fór hún þannig fram að knapar riðu einhesta frá Laxnesi til Þingvalla sem er um 30 km leið. Daginn eftir var haldið tilbaka um Almannagjá og að Laxnesi.
Hjartsláttur hestanna var mældur á áfangastað. Ef hann reyndist of hár gilti það sem refsistig og gat leitt til þess að knapi og hestur féllu úr keppni. Þolreiðin reyndi því mikið á samspil manns og hests.
Þolreiðarhugmyndin hefur skotið rótum allvíða í Evrópu, bæði á Norðurlöndum og í Þýskalandi og kom Póri að þeirri skipulagningu í samvinnu við Icelandair. Vegalengdin var ævinlega 20 km. Hestaleigan Laxnes gaf verðlaunabikara en Icelandair farmiða í verðlaun.
Fólk með mismikla reynslu
„Að reka hestaleigu er ekkert ósvipað og eiga fataverslun, það þarf að eiga allar mögulegar stærðir og gerðir,” segir Póri og brosir. „Við erum með 120 hesta og hingað kemur fólk með mismikla reynslu og oft eru börn með í för svo það þarf að eiga hesta sem henta öllum. Það koma um 15 þúsund gestir að Laxnesi á ári, 85% þeirra eru erlendir ferðamenn, alls staðar að úr heiminum.“
„Við sækjum viðskiptavini okkar til Reykjavíkur ef óskað er eftir því,“ segir Heiða. „Það eru farnar tvær skipulagðar ferðir á dag, ein á morgnana og svo önnur eftir hádegi. Þetta eru um tveggja tíma útreiðartúrar og leiðirnar liggja um fallegt og stórbrotið landslag. Í hádeginu er svo boðið upp á súpu og brauð og ilmandi gott kaffi á eftir.
Við bjóðum líka í samvinnu við önnur fyrirtæki ferðir um gullna hringinn, köfun í Silfru, hellaskoðun, hvalaskoðun og lundaskoðun.“
Ræktunin tekið miklum breytingum
Tal okkar berst að ræktun á íslenska hestinum sem þekktur er fyrir sínar fimm ólíku gangtegundir, fet, brokk, stökk, tölt og skeið. „Ræktunin hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áherslum hefur verið breytt, einstaklingar hafa komið þar inn með fjármuni og kunnáttu,“ segir Póri.
„Ég hef séð miklar framfarir og er ánægður með það starf sem unnið er, sérstaklega hjá ungviðinu á Hólum í Hjaltadal. Þetta unga fólk hefur skarað fram úr og hefur unglingastarf átt stóran þátt í uppbyggingu á þróun og ræktun á íslenska hestinum.“
Hlöðupartý í tilefni stórafmælis
Í júní síðastliðnum var haldið upp á 50 ára afmæli Hestaleigunnar í Laxnesi og mættu á annað hundrað manns í hlöðupartý og var mikil gleði við völd. Grillvagninn mætti á svæðið, Dísella Lárusdóttir söng nokkur vel valin lög og KK lék fyrir dansi.
Veislustjóri var skemmtikrafturinn og eftirherman Jóhannes Kristjánsson. Meðal gesta voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Ágústsson.
Forréttindi að vinna við áhugamál sitt
Ég spyr þau hjónin að lokum hvað standi upp úr þegar þau horfi til baka þessi 50 ár sem þau hafa rekið ferðaþjónustu. „Því er fljótsvarað, það er að hafa getað starfað við áhugamál sitt í allan þennan tíma og kynnst öllu þessu góða fólki sem hefur komið hingað til okkar í gegnum tíðina,“ segir Póri og Heiða var fljót að taka undir það.
„Lífið hefur verið dásamlegt hérna í Laxnesi og við höfum verið einstaklega heppin með starfsfólk sem hefur staðið sig vel og verið boðið og búið að fara með viðskiptavini í útreiðatúra hvernig sem viðrar.
Við sjáum fram á góða tíma. Íslenski hesturinn og náttúra Íslands er svo stórbrotin að það kemur ekki á óvart að fólk sæki okkur Íslendinga heim allt árið um kring og ekki má gleyma að norðurljósin eiga stóran þátt í því.“
Mosfellingurinn 20. desember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs