Lífið

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Ég er að lesa athyglisverða bók. Hugmyndafræði hennar er að við ættum að hætta að reyna að stýra öllu í kringum okkur og vera opin fyrir því sem lífið færir okkur. Ekki segja nei við tilboðum eða beiðnum, sama þótt þær passi ekki við það sem við höfðum ætlað okkur að gera í lífinu. Mér finnst þetta áhugaverð nálgun enda finnst mér oft ég hafa einhvern veginn lent í hlutverkum sem ég hafði ekki séð fyrir.

Ég sá ekki fyrir þegar ég var á Gildrutímabilinu mínu, fastagestur á Fimmunni sálugu, að ég ætti eftir að vakna eldsnemma á morgnana og fara með hóp af fólki út að æfa í náttúrunni. Ég sá ekki fyrir þegar ég var að reyna að sleppa sem léttast frá dönsku- og þýskuverkefnum í MS að ég myndi flytja til Danmerkur og læra þýsku í háskóla. Mér datt ekki í hug þegar ég eyddi mínum frítíma í að hlusta á Metallica og lesa Hemingway að ég myndi vinna við að halda fyrirlestra og námskeið. En svona er lífið, það færir manni alltaf eitthvað. Stundum eitthvað sem maður á von á, stundum eitthvað óvænt. Alltaf eitthvað spennandi, ef hugur manns er opinn og maður venur sig á að segja já, frekar en nei. Svo getur maður líka kallað tækifærin til sín. Hugsað um eitthvað sem mann langar að gera eða upplifa og þannig aukið líkurnar á að það gerist.

Ég var að vinna með karli föður mínum um helgina, sagði honum frá því að ég hefði verið að lesa ferðasögu eftir íslenska konu og að ég þyrfti endilega að hitta hana til að heyra meira um hennar flakk og upplifanir. Skemmtilegt, sagði sá gamli, ég fékk einmitt sms frá henni í gær og er á leið á fund með henni í vikunni. Þú kemur bara með.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. maí 2016