Líf mitt snýst um íþróttir

Gunnar Birgisson þekkja margir af skjánum en hann hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli sem íþróttafréttamaður. Gunnar hefur einnig sinnt öðrum dagskrárliðum hjá RÚV eins og Landanum, Skólahreysti og Eurovision söngvakeppninni en hann fylgdi íslensku Eurovisionförunum eftir í Malmö í Svíþjóð sl. vor.
Gunnar sem hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 2010 segir Eurovisionævintýrið og Ólympíukvöldin frá nýafstöðnum Ólympíuleikum vera það skemmtilegasta sem hann hefur gert á sínum starfsferli.

Gunnar er fæddur á Sauðárkróki 14. júlí 1994. Foreldrar hans eru Þorgerður Sævardóttir kennari og nuddari og Birgir Gunnarsson framkvæmdastjóri Þjóðkirkjunnar. Gunnar á tvö systkini, Sævar f. 1988 og Birgittu f. 2001.

Allt til staðar á þessum tíma
„Ég er alinn upp á Sauðárkróki og bý að því í dag að hafa notið þeirra forréttinda að alast upp úti á landi. Þetta var lítið og samheldið samfélag og allt sem maður þarfnaðist var til staðar á þeim tíma. Maður lék sér úti allan liðlangan daginn með systkinum sínum og vinum. Á veturna var vinsælt að vera á skíðum í götunni okkar og á sumrin lék maður sér í fótbolta eða körfubolta.
Við flytjum í Mosfellsbæ þegar ég var á leið í 8. bekk og ég er þakklátur fyrir það þótt ég hafi verið allt annað en sáttur við foreldra mína þegar þau tilkynntu flutninginn á sínum tíma. Hér í Mosó hef ég eignast mína bestu vini, kynnst kærustunni minni og búið til dásamlegt líf.“

Sumarkvöldin voru góð
„Æskuminningarnar eru margar og góðar, ég fékk frábært tónlistaruppeldi heima í Hólatúninu, Bubbi, ELO, Bob Dylan, Eagles og Michael Jackson. En keppnir milli okkar systkinanna í hinum ýmsu íþróttagreinum og þá einna helst gönguskíðum á veturna standa upp úr. Sævar bróðir kunni á alla takkana mína eins og ég síðan eflaust með Birgittu litlu systur. Ég á enn þann dag í dag eftir að finna eitthvað sem ég get unnið hann í,“ segir Gunnar og brosir.
Árlegar ferðir á Andrésar Andar leikana á skíðum á Akureyri voru líka eftirminnilegar, árið miðaðist svolítið við þá keppni. Sumarkvöldin voru líka góð, þá lék maður sér úti í fótbolta eða gerði einhver prakkarastrik. Í minningunni var alveg nóg af þeim og eflaust of mikið af þeim. Hugsa að ég hafi verið nokkuð krefjandi ungur maður með mikið skap sem kom mér oft í vandræði.“

Keppnisskapið fleytti mér langt
„Ég byrjaði í Árskóla á Sauðárkróki og var þar þangað til í 6. bekk, frábær skóli með skemmtilegum kennurum. Árið 2006 flytjum við fjölskyldan til Noregs í eitt ár og þá fór ég í Sore Ål skole í Lillehammer, stórkostlegt ár.
Árið 2008 flytjum við fjölskyldan svo í Mosfellsbæ og þá fór ég í Varmárskóla, sá skóli þótti mér til fyrirmyndar í öllu. Ég verð seint talinn afburða námsmaður en keppnisskapið fleytti mér nægilega langt til að standast allt saman með sæmd.
Á sumrin með skólagöngunni vann ég á útisvæðinu við Reykjalund, auk þess starfaði ég við knattspyrnuþjálfun hjá Aftureldingu.“

Flutti til Siglufjarðar
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla ætlaði ég mér beint í Verzlunarskóla Íslands en komst ekki inn. Í einhverju gríni setti ég Menntaskólann á Egilsstöðum í annað sætið í vali því ég var svo viss um að komast inn en allt í einu stóð ég uppi skólalaus.
Ég flutti þá norður á Siglufjörð til ömmu minnar og tók eina önn í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Fór síðan í hálft ár til Svíþjóðar til að æfa með sænskum skíðamenntaskóla í Jonsköping og komst svo inn í Verzló ári seinna en planlagt var.“

Það þurfti smá sannfæringarkraft
Þegar Gunnar var á síðasta ári í Verzlunarskóla Íslands sótti hann um að verða íþróttalýsandi hjá RÚV í kringum Ólympíuleikana í Sochi árið 2014. Hann var ráðinn til starfa og hefur verið þar allar götur síðan.
„Það þurfti smá sannfæringarkraft til að fá skólastjórnendur til að trúa því að þetta væri eitthvað sem ég myndi vilja starfa við í framtíðinni. Þeir gáfu mér sem betur fer leyfi til að fara og lýsa og ég held að það sé akkúrat það sem skólakerfið ætti að gera þegar svona tækifæri bjóðast.
Árin á RÚV hafa verið frábær, ég er alinn upp í íþróttaumhverfi og það er mikill heiður að fá að starfa við sitt aðaláhugamál, sem íþróttafréttamaður,“ segir Gunnar og brosir.

Sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð
Gunnar hefur ekki eingöngu séð um íþróttafréttir fyrir Ríkissjónvarpið því hann hefur einnig komið að dagskrárgerð í Landanum, verið kynnir í Skólahreysti og svo fylgdi hann íslensku Eurovisionförunum til Svíþjóðar sl. vor.
„Eurovision er líklega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert á starfsferlinum. Þetta kom upp með stuttum fyrirvara og ég sé ekki eftir að hafa þegið þetta boð, að fara út sem fréttamaður og fjalla um þessa áhugaverðu keppni. Það er svo mikil gleði, allt svo risastórt og stærra en maður hafði ímyndað sér.
Það skemmir ekki fyrir að við Mosfellingar erum svo rík af listamönnum að þeir spretta upp á hverju strái. Að fá að fylgja Heru Björk eftir í þessari keppni voru þvílík forréttindi, eitthvað sem maður lærði mikið af.“

Þetta starf er mér mjög kært
„Ég hef verið knattspyrnuþjálfari í 15 ár samhliða starfi mínu hjá RÚV, fyrst hjá Aftureldingu og nú hjá Breiðabliki og það starf er mér mjög kært. Að fá að taka þátt í uppeldi og að móta ung börn er eitthvað sem ég ber mikla virðingu fyrir og reyni að gera eins vel og ég mögulega get.
Mér þykir óskaplega vænt um að sjá litlu drengina sem ég þjálfaði fyrir 10-15 árum vera orðna að fullorðnum mönnum og standa sig vel í lífinu.“

Stefnumót í sundlaug
Unnusta Gunnars heitir Velina Apostolova, hún starfar sem verkefnisstjóri hjá Högum og er einnig fyrirliði blakliðs Aftureldingar í úrvalsdeild kvenna. Þau eiga saman dótturina Önnu Sóleyju f. 2020.
„Við Velina erum bæði mikið í íþróttum og á veturna þá fara kvöldin mikið í æfingar hjá okkur. Anna Sóley fylgir okkur hvert fótmál þannig að hinn hefðbundni kvöldmatartími er svo sem ekki til á okkar heimili. Fjölskyldan sameinast líka oft í sundlaugum Mosfellsbæjar sem er viðeigandi því fyrsta stefnumót okkar Velinu var einmitt í sundi,“ segir Gunnar og brosir.
„Um helgar fylgjum við dóttur okkar eftir í fimleikatímum hjá Aftureldingu og í íþróttaskólanum. Okkur finnst líka gaman að fara út að leika í okkar frábæra Helgafellshverfi og sömuleiðis að hitta ættingja og vini yfir kaffibolla.“