Leiruvogurinn okkar
Ein af helstu gönguleiðum mínum í okkar fallega útivistarbæ er meðfram Leiruvoginum. Í dag, á síðasta degi í apríl í fallegu veðri varð stórkostleg uppákoma: Margæsir hundruðum saman flugu inn voginn með tilheyrandi kvaki og látum.
Þessir fuglar eru alltaf á vorin og haustin gestir hjá okkur, næra sig hér í leirunum í stuttan tíma áður en þeir fljúga áfram á sínni löngu leið frá kanadískum íshafseyjum til vetrardvalar á Írlandi. Án þess að stoppa hér á þessari „bensínstöð“ gætu þær ekki komist þetta. Leirur eins og margæsin þarf eru einungis á Vesturlandi og frekar sjaldgæfar á landsvísu.
Við þurfum að standa vörð um Leiruvoginn okkar. Þetta er bæði útivistarparadís sem margir nota og njóta og með bestu fuglaskoðunarstöðum á landinu. Áformin um Sundabrautina þarf að hugsa vel og vandlega.
Brú með fyllingum mun hefta út- og innstreymi sjávar í voginn þannig að jarðefni mun smám saman safnast fyrir og vogurinn mun grynnast. Lífríkið mun verða fyrir talsverðum breytingum og áhrif á fuglalífið gæti orðið mikið.
Nú munu margir hugsa þannig að fuglarnir komi þeim ekki við, þeir vilja koma stystu og fljótustu leið sína á bíl. En þetta er ekki svona einfalt. Ef við höfum neikvæð áhrif á vistkerfi og jafnvel skemmum þau, þá kemur þetta á endanum okkur sjálfum í koll. Öll vistkerfin eru samspil af mörgum þáttum sem við menn áttum okkur oft ekki á.
Við sem notum gönguleiðir um Leiruvoginn okkar til heilsubóta og ánægju værum örugglega ekki kát að fá umferðaniðinn sem myndi stafa af hábrú þegar við viljum njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar.
Sundabrautina þarf að hanna með þetta í huga þó að það kosti meira. Við Mosfellingar eigum ekki að sætta okkur við ódýrustu leiðina sem gæti skemmt okkar útivistarparadís sem Leiruvogurinn er.
Úrsúla Jünemann