Leikskólinn Hlíð 40 ára

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Ragnheiður Halldórsdóttir fyrrverandi leikskólastjóri, Þrúður Hjelm leiðtogi í leikskólamálum, Steinunn Bára Ægisdóttir leikskólastjóri og Ólöf Kristín Sívertsen sviðsstjóri fræðslu og frístundar.

Ungbarnaleikskólinn Hlíð fagnaði 40 ára afmæli mánudaginn 22. september. Leikskólinn hóf starfsemi sína árið 1985 en varð alfarið ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 1–3 ára frá og með haustinu 2020.
Byggt var við skólann árið 2000 og fór leikskólinn þá úr 430 fermetrum upp í 800 fermetra eins og hann er í dag. Skólastjóri er Steinunn Bára Ægisdóttir og aðstoðarleikskólastjóri Kristín Ásta Jónsdóttir.

Mikilvægi umhyggju í leikskólastarfi
Hugmyndafræði leikskólastarfsins á Hlíð grundvallast á hugmyndum um mikilvægi umhyggju í leikskólastarfi. Umhyggja er leiðarstef Hlíðar og notuð sem regnhlífarhugtak sem nær utan um allt starf leikskólans, allt frá því að taka á móti barni að morgni og til þess að skapa þroskavænlegt námsumhverfi í skólanum.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri færði leikskólanum segulkubba fyrir 18 mánaða og eldri og blómvönd að gjöf í tilefni afmælisins.