Leikskólanum Hlaðhömrum lokað
Miklar breytingar hafa orðið á aðstæðum barna og starfsfólks á leikskólanum Hlaðhömrum á undanförnum mánuðum.
Árið 2024 fannst raki í eldra húsi Hlaðhamra og úr varð að hluta þess húsnæðis var lokað samkvæmt ströngustu kröfum þar um. Í lok síðasta árs kom síðan upp leki í tengibyggingu milli eldri og yngri hluta leikskólans og á svipuðum tíma sprakk hitaveiturör í vegg í rými sem hafði verið lokað.
Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun að loka eldra húsinu alfarið auk þess hluta tengibyggingarinnar sem lak.
Vegna lokunarinnar þurfti að bregða á það ráð að flytja 22 börn af 50, ásamt hluta starfsfólks, yfir í Krikaskóla þar sem vel var tekið á móti þeim. Í kjölfarið var Efla fengin til að gera úttekt á yngri hluta húsnæðis Hlaðhamra og þegar niðurstöður lágu fyrir var ákveðið í samráði við starfsfólk að loka skólanum og flytja starfsemina tímabundið á nýjan stað.
Tekin var ákvörðun í samráði við stjórnendur að leigja þrjú rými í Þverholti nr. 3, 5 og 7. Starfsemi hófst í Þverholtinu þann 18. mars sl. og eru bæði börn og starfsfólk í óða önn að setja sig inn í aðstæður á nýjum stað. Sökum nálægðar við Hlaðhamra er hægt að nýta útisvæðið þar áfram en matur er eldaður í Krikaskóla og sendur þaðan í hitakössum í Þverholtið.
Sameinast síðar í nýjum leikskóla í Helgafellshverfi
Starfsfólk Hlaðhamra hefur staðið sig einstaklega vel í krefjandi aðstæðum og hafa íbúar í Þverholti einnig lagt sitt af mörkum við að láta þetta allt saman ganga upp. Dvölin í Þverholti mun þó eingöngu standa fram að sumarleyfum en að þeim loknum munu börn og starfsfólk Hlaðhamra sameinast á ný í húsnæði nýja leikskólans í Helgafellslandi.
Þá hefur bæjarráð samþykkt að fara í heildarendurskoðun á húsnæði leikskólans Hlaðhamra til þess að meta hvort eigi að rífa allt húsið og byggja nýtt eða að hluta. Það helst einnig í hendur við framtíðarsýn um uppbyggingu leikskóla í bænum.