Leikskólabygging í Helgafellshverfi
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær vaxið hratt sem felur í sér margs konar áskoranir, svo sem að innviðir fylgi með, þar á meðal fjölgun leikskólaplássa.
Vel hefur verið haldið á þessum málum undanfarin ár í Mosfellsbæ og hafa flest öll börn 12 mánaða og eldri í bænum fengið dagvistunarúrræði undanfarin ár.
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn lýsa yfir mikilli ánægju með að loksins hafi verið tekin ákvörðun af meirihlutanum um að bjóða út byggingu leikskóla í Helgafellshverfi, en það útboð var á döfinni síðastliðið sumar.
Nýr meirihluti frestaði útboðinu á síðasta ári, ekkert gerðist í marga mánuði en loks var settur á stofn starfshópur sem var til þess fallinn að skoða stöðu leikskólamála í Mosfellsbæ.
Sú vinna var algjörlega óþörf að okkar mati því upplýsingarnar og áætlanir lágu þegar fyrir á fræðslusviði bæjarins og það hefur verið vandlega og af fagmennsku unnið í þessum málum undanfarin ár eins og góð staða dagvistunarmála í Mosfellsbæ sýnir.
Biðlistar myndast og kostnaður stórhækkar
Bæjarfulltrúar D-lista hafa ítrekað á síðustu átta mánuðum þrýst á að bygging leikskóla hefjist sem fyrst því sú töf sem hefur orðið á framkvæmdum er bæði óheppileg og kostnaðarsöm. Opnun leikskólans mun frestast um allt að eitt ár með tilheyrandi vandræðum með dagvistun auk þess sem kostnaður við bygginguna verður hærri vegna þeirra tafa sem hafa orðið.
Í byrjun kjörtímabilsins lögðu bæjarfulltrúar D-lista til að farið verði í vinnu við að lækka byggingarkostnað og bjóða verkið strax út en það hefði sparað skattgreiðendum háar fjárhæðir í kostnaði við verkefnið. Hugmyndir okkar varðandi lækkun byggingarkostnaðar voru ekki skoðaðar en ljóst er að þær hefðu getað skilað mun meiri lækkun á byggingarkostnaði, bygging leikskólans hefði ekki tafist og kostnaður hefði ekki hækkað eins og nú hefur gerst.
Það er ánægjulegt að það hafi tekist að lækka núverandi áætlaðan byggingarkostnað um 15% en sú lækkun og sá sparnaður sekkur allur í hafið vegna hækkana sem hafa orðið m.a. á byggingarvístölu, verðbólgu, byggingarkostnaði, launa- og fjármagnskostnaði verkefnisins á síðustu mánuðum.
Auk þess var ákveðið, fyrir eingöngu fjórum vikum síðan, að bjóða út stoðveggi sem eru hluti af byggingunni í sérútboði sem er mjög óhagkvæmt, í stað þess að bjóða allt verkið út í einu lagi.
Slæm stjórnsýsla og hærri kostnaður
Fulltrúar meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar tóku ranga ákvörðun í þessu máli og er það miður fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ og foreldra ungra barna sem því miður munu lenda á biðlistum eftir dagvistun vegna tafa sem hafa orðið á byggingu leikskólans.
Reikna má með að útgjöld sveitarfélagsins muni áfram hækka til muna vegna ákvarðanafælni nýs meirihluta því búið er að fresta til dæmis nauðsynlegum framkvæmdum að Varmá, m.a. bygging 1.200 m2 þjónustuhúss og lagning nýs gervigrasvallar. Þær framkvæmdir eru í algjörri óvissu og gæti kostnaður orðið tugum eða hundruðum milljóna króna hærri þegar loks að framkvæmdum kemur og er það afar slæmt fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.
Er þetta meirihlutinn og vinnubrögðin sem kjósendur Framsóknar völdu í kosningunum síðastliðið vor?
Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista
Bæjarfultrúi Mosfellsbæ