Krakka Mosó verkefnin komin í notkun
Um miðjan október lauk vinnu við að setja upp þau leiktæki sem krakkar í Mosfellsbæ völdu í lýðræðisverkefninu Krakka Mosó.
Nokkrir hressir krakkar tóku sig til í byrjun vikunnar og tóku tækin formlega í notkun en tækin ættu ekki að hafa farið fram hjá krökkum í bænum sem hafa nýtt sér hlýindin í október til að leika sér þar.
Þrjú verkefni kosin til framkvæmda
1) Stór aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli sem er hugsuð fyrir eldri börn og unglinga og var sett upp í Ævintýragarðinum.
2) Þrautabraut á vatni við Stekkjarflötina en fyrirmynd hennar er vatnsþrautabrautin í Kjarnaskógi fyrir utan Akureyri og hentar brautin bæði börnum og unglingum.
3) Loks voru sett upp nokkur tæki á leikvelli við Rituhöfða sem eru snúningsróla, klifurgrind, minna snúningstæki og bekkur. Í því verkefni reyndist nauðsynlegt að gera breytingar frá þeirri tillögu sem kosið var um. Í ljós kom að ekki eru lengur fluttar inn til landsins fjögurra arma snúningsrólur en áður en sú breyting var gerð óskaði bæjarráð eftir umsögn ungmennaráðs um hana. Ungmennaráð samþykkti þá breytingu fyrir hönd krakka í Mosfellsbæ. Rólan er ætluð fyrir börn frá sex ára aldri og sameinar hreyfingu, jafnvægi og gleði á skemmtilegan hátt.
997 börn greiddu atkvæði
Krakka Mosó er þátttökulýðræðisverkefni þar sem nemendur á mið- og unglingastigi grunnskóla Mosfellsbæjar settu fram hugmyndir að verkefnum í opnu samráði.
Skólarnir voru með lýðræðisfræðslu og verkefninu lauk með kosningu þar sem 1.179 voru á kjörskrá. Grunnskólar með mið- og unglingastig í Mosfellsbæ eru Kvíslarskóli, Helgafellsskóli, Lágafellsskóli og Varmárskóli og höfðu nemendur þeirra allir færi á að kjósa.
Alls greiddu 997 börn atkvæði, sem er um 85% kjörsókn. Fulltrúar krakkanna stýrðu talningu atkvæða sem fór fram á kjördag þann 20. maí síðastliðinn og var sumarið notað til að framkvæma verkefnin undir styrkri stjórn garðyrkjudeildar Mosfellsbæjar.



