Kraftur kolvetnanna
Kolvetnin hafa átt undir högg að sækja undanfarið. Það hefur verið sótt að þeim úr ýmsum áttum og mataræði á borð við Primal, Paleo og Ketó hafa farið sigurför um heimsbyggðina. Ég stökk á Primal-vagninn á sínum tíma. Mér leið ágætlega á því, þannig séð, en vantaði samt einhverja orku yfir daginn. Ég daðraði við Paleo-mataræðið en komst aldrei almennilega inn í það. Kannski af því að mér líður einfaldlega best þegar ég fæ kolvetnin mín.
Ég hef undanfarið verið að stúdera bæði langlífismataræði og keppnismataræði. Langlífismataræðið byggir á mörgum rannsóknum úr ýmsum geirum. Þær sýna að þau samfélög þar sem fólk lifir lengst – og heldur heilsunni lengi – eiga það sameiginlegt að fólk borðar mikið plöntufæði. Kolvetni fyrst og fremst. Úr nærumhverfi yfirleitt. Það sem hægt er að rækta á staðnum. Þeir langlífu borða yfirleitt ekki mikið af dýraafurðum, fá mest af próteinum sínum úr jurtaríkinu og fituna sömuleiðis. Ólívuolíu til dæmis.
Ef margar rannsóknir á langlífi og góðri heilsu sýna að kolvetni úr grænmeti, ávöxtum og öðrum plöntum hafi jákvæð áhrif á langtíma heilsu okkar, er þá ekki ástæða til að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að sýna kolvetnunum virðingu og vinsemd og gefa þeim góðan sess í daglegu mataræði okkar? Við hjónin erum þessa dagana á kafi í Spartan Race þjálfaranámskeiði – það snýst um allt sem kemur að undirbúningi og þátttöku í þessum dásamlegu utanvegarhindrunarhlaupum. Næring er þar mikilvægur hluti.
Á námskeiðinu er útskýrt vel af hverju íþróttamenn verða að fá nóg af góðum kolvetnum til þess að komast í gegnum erfiðar keppnir á borð við Spartan Race. Prótein og fita eru ekki nóg. Sem sagt, kolvetnin eru okkur nauðsynleg bæði sem orka fyrir mikla hreyfingu og sem lykill að langlífi og góðri heilsu. Þau lengi lifi!
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. janúar 2020