Kosið um 29 tillögur í Okkar Mosó 2021
Rafræn kosning er hafin í lýðræðisverkefninu Okkar Mosó 2021. Þar gefst íbúum tækifæri á að kjósa sín uppáhalds verkefni til framkvæmda, verkefni sem þeim þykja gera bæinn betri.
Um er að ræða forgangsröðun og úthlutun fjármagns til framkvæmda í nærumhverfi íbúa í Mosfellsbæ.
Alls bárust 140 fjölbreyttar tillögur að verkefnum í hugmyndasöfnuninni, talsvert fleiri en árin 2017 og 2019. Hugmyndirnar voru metnar af hópi sérfræðinga á umhverfissviði Mosfellsbæjar og lagt var mat á kostnað við hönnun og framkvæmd. Afrakstur þeirrar vinnu var tillaga um 29 hugmyndir sem voru lagðar fram til kynningar í lýðræðis- og mannréttindanefnd og eru þær nú komnar í kosningu meðal íbúa Mosfellsbæjar. Kosningin fer fram á slóðinni kosning2021.mos.is sem stendur yfir þessa vikuna til og með sunnudagsins 6. júní.
Tvöfalt vægi með hjarta
Íbúar velja þær hugmyndir sem þeir vilja kjósa á kosningasíðunni. Hægt er að kjósa áfram hugmyndir fyrir samtals upphæð allt að 35 milljónum. Mikilvægt er að vita að þegar kosið er þarf ekki að fullnýta fjármagnið. Með því að kjósa eitt eða fleiri verkefni velur íbúi að gefa þeim atkvæði sitt. Kjósendur geta líka sett hjarta við eina af þeim hugmyndum sem þeir kjósa og þannig gefið þeirri hugmynd tvöfalt vægi, tvö atkvæði í stað eins.
15 ára og eldri geta kosið
Ungmenni sem verða 15 ára á árinu geta haft áhrif og kosið. Það þýðir að verðandi 10. bekkingar geta komið sínu áliti á framfæri. Um er að ræða íbúakosningu sem er framkvæmd á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga þannig að allir kjósendur þurfa að notast við rafræn skilríki eða Íslykil til þess að greiða atkvæði.
Íbúakosningin er hafin
Íbúar í Mosfellsbæ eru hvattir til þess að taka þátt í að velja hugmyndir og að hvetja aðra til þess að kjósa á síðunni kosning2021.mos.is.
Nánari upplýsingar er að finna á mos.is/okkarmoso og í kápunni sem hylur Mosfelling að þessu sinni.
Það er kjörið að losa kápuna af blaðinu til þess að virða allar hugmyndir fyrir sér á einni opnu og jafnvel hengja á ísskápinn til að minna heimilismenn á að kjósa.
Hér getur þú kosið: kosning2021.mos.is