Komdu og prufaðu að hlaupa með okkur :)

mososkokkmynd

Halla Karen Kristjánsdóttir

Halla Karen Kristjánsdóttir

Velkomin í Mosóskokk • Frítt fyrir alla til 1. maí

Ert þú alltaf á leiðinni að fara að hlaupa með hlaupahópi? Ef svo er þá er Mosóskokk fyrir þig. Þetta er góður hópur sem samanstendur af fólki sem hefur gaman af því að hreyfa sig utandyra og hlaupa allar þessar fjölmörgu og fallegu leiðir hér í bæ.
Markmiðin eru misjöfn, sumir í hópnum eru í honum einungis til þess að stunda holla og góða útiveru, aðrir eru ávallt að setja sér einhver markmið og fá mikla ánægju af því að afreka eitthvað og enn aðrir sækjast í að vera í góðum félagsskap og njóta.
Við viljum þó gera góðan hóp enn betri og fá þig í lið með okkur þannig að hópurinn verði enn breiðari og öflugri.

Það er mikið um að fólk hlaupi sér til ánægju og heilsubótar enda umhverfið okkar með eindæmum fallegt og gott til útiveru. Mikið framboð er af skemmtilegum hlaupum út um allt land hvort sem er utanvegahlaup eða hefbundin götuhlaup.
Það veitir manni mikið aðhald og hvatningu að tilheyra einhverjum hlaupahópi og ég mæli með því að þú komir og prufir að hlaupa með okkur líka. Það gefur þér gott aðhald og regluleg og markviss þjálfun kemur manni í betra þolform og maður verður ánægðari með lífið og tilveruna. Hver vill það ekki! Regluleg ástundum er nefnilega lykillinn að árangri. Það er líka oft einhvern veginn miklu auðveldara að puða og púla með öðrum heldur en að vera einn síns liðs.
Við æfum á mánudögum og miðvikudögum kl: 17:40 og á laugardögum kl. 9:00. Mæting er í anddyri World Class. Vikuleg æfingaáætlun er send til iðkenda. Á mánudögum er hlaupið frá 5 og upp í 11 kílómetra, allt eftir getu hvers og eins og styrktaræfingar á eftir. Þjálfari er með hópnum sem fer um 5- 7 km. Á miðvikudögum eru tempóhlaup eða brekku og sprettæfingar. Á laugardögum er farið rólega og langt en auðvitað getur hver og einn stjórnað því hversu langt hann vill fara. Um miðjan maí og a.m.k. út júlí bætast við fimmtudagsæfingar (utanvegahlaup/fjallahlaup) og stefnt verður að því að fara hlaupandi/ gangandi upp á fallegu fjöllin okkar sem eru hér allt í kringum okkur. Þannig að í Mosóskokki ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Við stefnum á að hlaupa, bæta heilsuna og hafa það gaman í sumar og æfa okkur fyrir flotta Tindahlaupið okkar hér í Mosfellsbæ. Reykjavíkurmaraþonið er líka markmið hjá mörgum en vegalengdirnar misjafnar. Einnig stefnum við mörg á að fara bæði í Snæfellsjökulshlaupið og til Vestfjarða um miðjan júlí á hátíðina þar. Svo erum við oft að gera margt annað skemmtilegt en að hlaupa, já okkur finnst ekki bara skemmtilegt að hlaupa !
Ekki bíða, komdu og vertu með okkur.

Hlaupakveðja
Halla Karen Kristjánsdóttir íþróttakennari og þjálfari
„Hvert sem höfuðið fer elta fæturnir“