Keppa í þungarokki í Hlégarði

tungarokk

Föstudagskvöldið 8. apríl verður hljómsveitakeppnin Wacken Metal Battle haldin Hlégarði. Um er að ræða keppni álíka og Músiktilraunir, þar sem nokkrar hljómsveitir taka þátt. Sveitin sem sigrar hlýtur þátttökurétt fyrir Íslands hönd á stærstu þungarokkshátíð heims, Wacken Open Air í Þýskalandi.
„Wacken er smábær í Norður-Þýskalandi sem telur rétt um 2.000 íbúa en bærinn umturnast á hverju sumri þegar 80.000 manns mæta á svæðið og hlusta á kanónur þungarokksins spila,“ segir Þorsteinn Kolbeinsson, skipuleggjandi. „Wacken hefur síðan 2004 boðið óþekktum hljómsveitum, sem eru ungar og ekki komnar með útgáfusamning, að mæta og spila og fá þar með alveg gríðarlega kynningu. Ísland hefur verið í þessari keppni síðan 2009, 30 þjóðir halda undankeppni í sínum löndum og lokakeppnin fer fram á Wacken, þar sem sigursveitin fær vegleg verðlaun.“

Dimma lýkur kvöldinu
Í ár keppa sex sveitir í úrslitum og mun 15 manna alþjóðleg dómnefnd ásamt áhorfendum velja sigurvegarann. Það er til mikils að vinna en auk vinninga hér heima þá mun sigursveitin taka þátt í lokakeppninni í Þýskalandi ásamt fulltrúum frá 29 öðrum þjóðum. Hljómsveitirnar sem taka þátt í ár eru: Aeterna, Auðn, Churchhouse Creepers, Grave Superior, Lightspeed Legend, og While My City Burns. Sérstakur gestur kvöldsins er svo hljómsveitin Dimma, sem hefur stimplað sig rækilega inn sem ein stærsta þungarokkssveit landsins. Húsið opnar kl. 19. Hægt er að nálgast miða á tix.is en allar frekari upplýsingar um þennan viðburð er að finna á Facebook-síðunni Wacken Metal Battle Iceland.