Kæri Mosfellingur

Bryndís Haraldsdóttir

Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna fyrir þig síðustu ár, fyrst sem bæjarfulltrúi og seinna sem þingmaður. Nú er komið að kosningum og ég legg störf mín í þinn dóm.

Árangur fyrir okkur öll
Á þessu kjörtímabili hef ég verið formaður allsherjar- og menntamálanefndar ásamt því að hafa setið bæði í fjárlaganefnd og velferðarnefnd. Í allsherjar- og menntamálanefnd höfum við afgreitt ýmis mál. Þar ber að mínu mati hæst þær mikilvægu breytingar sem gerðar voru á útlendingalögum, breytingar sem gengu út á að styrkja kerfið og færa það til samræmis við kerfin á hinum Norðurlöndunum. Þá samþykktum við jafnframt breytingar á lögreglulögum, breytingar sem styrkja lögregluna í störfum sínum, einkum og sér í lagi gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Ég er ekki síður stolt af þeim lögum sem við samþykktum um miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Miðstöðin verður lykilstofnun fyrir skóla landsins en þar er, meðal annars, verið að þróa samræmd hæfniviðmið. Slík viðmið eru auðvitað ein grundvallarforsenda öflugs skólakerfis og veita nauðsynlegar upplýsingar um það hvar börnin okkar standa. Þau veita okkur innsýn í styrkleika barnanna, hvar þau blómstra, og hverju megi hlúa betur að.
Auk þessa hef ég sjálf lagt fram ófá mál á Alþingi, mál sem ég tel samfélaginu öllu til bóta, sum stór, önnur smærri, en öll nauðsynleg. Þar á meðal eru mál um dánaraðstoð, um að gefa dreifingu ösku frjálsa og um að setja Sundabraut strax í einkaframkvæmd, svo fátt eitt sé nefnt.
Þótt árangur hafi náðst í mörgum málum eru sum ekki komin jafn langt og ég myndi helst hafa kosið. Það er til dæmis löngu orðið tímabært að ráðast í alvöru umbætur á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Ég hef þess vegna verið mikill stuðningsmaður höfuðborgarsáttmálans. Við Mosfellingar þekkjum það enda af eigin raun hversu mikill tími fer í ferðir á milli staða. Slíkt gengur ekki til lengdar. Við þurfum að bretta upp ermar og ráðast í þær samgöngubætur sem þörf er á ekki seinna en strax.

Hvers vegna er ég Sjálfstæðismaður?
Á laugardag eru kosningar. Úrslit þeirra munu ráða hvert við stefnum sem samfélag á næstu árum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill létta undir með heimilum landsins, það gerum við með hagræðingu í ríkisrekstri, lægri sköttum, minni verðbólgu og lægri vöxtum.
Jöfn tækifæri allra eru forsenda framfara og velferðar. Þjóðir sem ná árangri í menntamálum búa við fleiri tækifæri og betri lífskjör. Þess vegna boðar Sjálfstæðisflokkurinn stórsókn og umbreytingu á menntakerfinu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið en ekki kerfið, þar sem þjónusta er veitt tímanlega og er aðgengileg öllum óháð efnahag. Sjálfstæðisflokkurinn vill aukna nýsköpun og fjölbreyttari rekstrarform sem stuðlar að betri þjónustu.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um séreignarstefnuna og ætlar að ryðja í burtu hindrunum sem standa í vegi fyrir því að einstaklingar geti eignast eigið húsnæði. Í því felst að byggt verði hraðar, meira og hagkvæmar. Það gagnast jafnt þeim sem vilja eiga og leigja.
Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðar. Sjálfstæðisflokkurinn vill að það sé eftirsóknarvert að stofna og reka fyrirtæki á Íslandi. Til þess þarf að tryggja stöðugleika, hóflega skattheimtu og einfalt regluverk.

Sjálfstæðisflokkurinn vill verja fullveldi, sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tryggja enn frekar efnahagslegt sjálfstæði landsins með frjálsum viðskiptum og greiðum aðgangi að alþjóðamörkuðum. Við viljum ekki ganga í ESB enda er hag íslensku þjóðarinnar betur borgið utan Evrópusambandsins.
Ég vil meiri árangur fyrir okkur öll. Þess vegna er ég Sjálfstæðismaður.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Meiri árangur fyrir okkur öll
Settu X við D á kjördag