Jólaljós og lýsing fyrir börnin, eldri borgara og okkur öll
Á aðventunni skreytum við hús okkar og önnur hýbýli, við lýsum upp tilveruna og skammdegið með fögrum litríkum jólaljósum. Þau veita okkur gleði og við fögnum hvert okkar þessum frítíma fjölskyldurnar í friði og ró.
Öll þurfum við ljós í líf okkar og það skiptir málið þegar skammdegi ríkir að við getum lýst upp bæði hjörtu okkar sem og næsta nágrenni, götur, stíga og skuggasund hvers konar. Við viljum slá skjaldborg um börnin, eldri borgara og þá sem minna mega sín.
Allir þurfa ljós og umfjöllun um lýsingu í Mosfellsbæ hefur verið ítarleg síðustu ár og sérstaklega varðandi gönguleiðir barna í og úr skóla sem og við skólabyggingar. Innakstur við skóla og umferðarþungi í bænum hefur aukist umtalsvert síðustu ár án þess að átak hafi verið gert varðandi lýsingu bæði í næsta nágrenni skólamannvirkja og á þeim leiðum sem börn fara um, gangandi eða hjólandi.
Það sorglegasta sem komið getur fyrir er að aðeins eitt alvarlegt umferðaratvik verði til þess að vekja okkur upp og vonandi að nýlegur atburður hér í bænum geti vakið fleiri en foreldra upp af værum svefni nú í skammdeginu. Það nægir ekki að skreyta bæ ljósum ef lýsingin fyrir börnin sem og aðra er ekki fullnægjandi.
Lengi vel hefur verið bent á göngustíga á milli húsa í mörgum hverfum Mosfellsbæjar og önnur skuggasund sem eru ekki nægjanlega upplýst þannig að eldri borgarar eiga erfitt með að fóta sig og finna örugga leið. Það er afskaplega mikilvægt að bæta þarna úr og gæta að því að fólk geti bjargarlaust komist á milli staða án þess að þurfa að búa sig sérstaklega með mikinn ljósabúnað til þess eins að komast á milli staða í sínu hverfi eða til starfa, hvort sem er í skóla eða í daglegu lífi sínu. Vil ég því upplýsa fólk um þessa afstöðu mína og vilja til að bætt verði þarna úr.
Ég vil einnig leggja áherslu á að þetta er eitt af þeim málum sem Miðflokkurinn hefur bent á og má þá helst nefna athugasemd vegna lýsingar við Skeiðholtið þar sem dróst nokkuð lengi í haust að koma á lýsingu áður en skólar hófust. Þar var gripið í taumana sem betur fer en það er mun meira sem eftir er að bæta úr eins og bent hefur verið á. Við búum í fallegum bæ sem er fullur af ævintýrum og frábærum börnum. Njótum þess og leitum einnig logandi ljósum að lausnum til framtíðar fyrir þau sem aðra.
Að lokum vil ég þakka allan stuðninginn sem Miðflokkurinn fékk í síðustu sveitastjórnarkosningum. Óska ég öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megum við öll líta björtum augum til framtíðar og njóta alls þess besta á nýju ári.
Þórunn Magnea Jónsdóttir,
varafulltrúi Miðflokksins í skipulagsnefnd, bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar