Jólahugvekja Frá framsókn

Kæru Mosfellingar
Gjöf jólanna er hóværð, mildi og mannúð. Í okkar samfélagi er aðventan tíminn þar sem borgir og bæir eru skreytt sínu fegursta og ilmur jólanna liggur í loftinu.
Almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar sameinast allflestir í því að skreyta hús sín og næsta nágrenni með ýmiskonar ljósaskreytingum.
Jólalög hljóma úr hverju horni, jólatónleikar eru út um allt og fólk er að hittast og gleðjast saman. Það passar eitthvað svo vel að hafa einn af myrkustu mánuðum ársins baðaðan í öllum þessum fallegu ljósum, skreytingum og boðskap sem lýsa upp dagana og baða okkur í birtu og yl.
Þótt tilhlökkun sé mikil til aðventu og jóla hjá mörgum og þessi mánuður sveipaður dýrðarljóma þá er gott að minna sig á að það hlakka ekki allir til jólanna. Margir glíma við að hafa misst ástvin sem er ekki með þeim nú um jólin, aðrir hafa ekki stóra fjölskyldu í kringum sig og eru einmana og enn aðrir eru í vandræðum vegna fjárhagsvanda og það er mikill kvíði yfir þessum oft svo dýra mánuði.
Því er mikilvægt að minna sig á að huga vel að náunganum og það er auðvitað mikilvægt alveg sama í hvaða mánuði það er, gefa af sér, sýna vingjarnlegt viðmót og vera til staðar.
Mikilvægt er einnig að gera góðverk og hjálpa til. Já, það er eitt það besta sem maður getur gert til þess að gleðja aðra sem og sig sjálfan.
Okkur í Framsókn langar að óska ykkur kæru sveitungar gleðilegra jóla, hamingju og góðrar heilsu á nýju ári
Eigið góða daga og megi gæfan umvefja ykkur.

Með jólakveðju, bæjarfulltrúar og stjórn Framsóknar í Mosfellsbæ